Allir vita að góð heilsa og heilbrigði á sál og líkama er einn af mikilvægustu þáttunum í að lifa góðu lífi. Í grunnskóla þurfa öll börn frá 6-16 ára aldri að mæta í íþróttatíma í þeim tilgangi að hreyfa sig og fá kynningu á allskonar íþróttum. En fá börn nægilega mikla hreyfingu í skólanum?
Fyrir mér hafa íþróttirnar verið það allra skemmtilegasta í gegnum þessi 10 ár grunnskólans. Í tvo tíma á viku fær maður frí frá lærdómi, maður fær að hreyfa sig og því fylgir smá útrás. Ég finn alltaf fyrir tilhlökkun hjá flestum í bekknum mínum þegar gengið er niður í íþróttasal, enda bekkurinn stútfullur af keppnismönnum. Það skemmtilegasta er þegar það sýður allt uppúr, allir að rífast, blót og pirringur. Við getum líka alveg rifist um eitthvað smáatriði í íþróttum næstu daga jafnvel. Ég hef lært ýmislegt í íþróttum. Meðal annars að blak er vinsælli íþróttagrein en fótbolti. Einnig fáum við alltaf helminginn af tímanum í kynningu á íþróttinni, sem mér finnst frábært að fara í gegnum áður en maður spreytir sig. Einnig finnst mér yndislegt að fá að senda á milli og drippla áður en maður fer síðan í körfubolta í 5 mínútur í lokin. Ég hef lært ýmsar íþróttir mjög vel, til dæmis badminton, blak tennis og síðast en ekki síst bandýið sem við höfum mikið farið í enda gríðarlegur áhugi fyrir bandý í bekknum. Þegar það er stórmót í íþróttum t.d. HM í handbolta, þá fáum við yfirleitt kynningu á greininni og spilum hana svo. Við viljum yfirleitt fara í óhefðbundinn handbolta þannig að það sé bannað að drippla og brjóta enda er hann miklu skemmtilegri þannig. Mér finnst að það ættu að vera fleiri íþróttatímar í hverri viku. Íslendingar hafa oft verið gagnrýndir fyrir hátt hlutfall offitu og það er ekkert leyndarmál að það er vandamál hér á Íslandi. Með fleiri íþróttatímum minnkum við offitu, eflum áhuga á íþróttum almennt og verður einnig skemmtilegra í skólanum.
Það má því segja að hreyfing í skólum séu mikilvægur þáttur í námi barna. Sjálfur hef ég fengið mikið út úr íþróttatímum bæði vegna áhuga og keppni við bekkjarfélagana . Íþróttir eru fjölbreytt og skemmtilegt fyrirbæri sem allir ættu að prófa. Aukum hreyfingu og þar með heilsusamlegra samfélag. Ég þakka lesturinn.
Aðalgeir Axelsson 10. KJ