Af hverju foreldrarölt ?
Fyrst og fremst vegna þess að okkur er ekki sama. Við viljum varna því að börnin okkar lendi í vanda. Við viljum líka koma í veg fyrir hópamyndanir eftir lögleglan útivistartíma. Nærvera fullorðinna þar sem börn hafa safnast saman hefur róandi og fyrirbyggjandi áhrif. Líkur á að börnin okkar lendi í aðstæðum sem ógna þeim eða hræða minnka þegar fullorðnir eru nálægir. Nærvera fullorðinna gefur börnunum tækifæri til að leita aðstoðar ef á þarf að halda.
Af hverju þú ?
Langflestir foreldrar standa vel að sínum börnum og þeir eru ekki úti eftir að lögbundnum útivistartíma lýkur. Margir spyrja því hvers vegna þeir eigi að fara út af heimilinu frá sínu barni til að passa annarra manna börn? Með því að taka þátt í foreldrarölti höfum við áhrif á hverfisbraginn og það félagslega umhverfi sem við og börnin okkar búum við. Því færri sem nota vímuefni, eru lagðir í einelti eða beittir einhvers konar ofbeldi, því betra og öruggara er umhverfi okkar. Við berum öll ábyrgð á okkar nánasta umhverfi og eigum að sýna þeim sem eiga í vanda að okkur er ekki sama. Auk þessa kynnumst við fleiri foreldrum, við höfum gott tækifæri til að ræða sameiginleg áhugamál og, síðast en ekki síst, við eigum saman ánægjulega stund á heilsubótargöngu um hverfið okkar!
Fyrirkomulag foreldraröltsins
Mæting á röltið er við Giljaskóla. Þeir sem rölta skulu aldrei vera færri en þrír. Röltarar fara um hverfið fótgangandi (geta skipt liði en samt alltaf lágmark tveir saman) og líta eftir hvort ekki sé allt með felldu, engin samansöfnuður barna eða unglinga á að eiga sér stað eftir lögboðinn útivistartíma.
Yfirleitt er miðað við að rölt sé þegar það er opið hús sem er þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 21:30 – 22:30 og þau föstudagskvöld þegar böll eru í skólanum þá er rölt frá kl. 23:00 - 00:30.
Útivistarreglur frá 1. september – 1. Maí
6 – 12 ára börn mega vera úti til kl. 20:00
13 - 16 ára unglingar mega vera úti til kl. 22:00
Skipulag foreldrarölts Giljaskóla skólaárið 2024 - 2025
Hvernig á að hegða sér á foreldrarölti ?
- Við eigum að sjást. Við eigum að vera í endurskinsvestum sem eru í sérmerktum kassa upp á skógrind við aðalinngang Giljaskóla. Skila vestum aftur í gegnum póstlúgu eftir göngu.
- Við eigum helst ekki að vera færri en fjögur saman, en röltum þó einhvern vanti.
- Við röltum um hverfið og erum sýnileg.
- Við höfum afskipti af börnum og unglingum sem eru einir úti eftir útivistartíma. Bendum á regluna og ef þau fara ekki sjálfviljug heim þá má hafa samband við lögreglu.
- Við ræðum ekki málefni einstaklinga sem við mætum á foreldrarölti við óviðkomandi.
- Við þurfum að vera til taks ef börnin þurfa á okkur að halda.
- Við þurfum að geta hlustað og leiðbeint án þess að stjórna.
- Við hringjum á lögreglu (112) ef upp koma árekstrar, ofbeldi, slys, vímuefnaneysla /-sala eða annað sem krefst afskipta. Tökum fram að við séum foreldrar á rölti.
- Vert er að gefa bílum gaum sem þið teljið tortryggilega, það gæti verið vísbending um landa- og fíkniefnasölu. Skynsamlegt er að skrifa niður bílnúmer og setja í skýrslu. Þeim upplýsingum er komið áfram til forvarnardeildar lögreglunnar.
- Við erum ekki lögreglan! Við ætlum að sýna börnunum að okkur er ekki sama um þau.
Tengiliður stjórnar foreldrafélagsins: Ingimar 8622173
Tengiliður skólans: Ella 8673935