Áætlun gegn einelti

Stefnuyfirlýsing Giljaskóla

Starfsfólk Giljaskóla lýsir því yfir að hvorki einelti né annað ofbeldi er liðið í skólanum. Leitað er allra leiða til að fyrirbyggja einelti og áhersla lögð á að leysa þau mál sem upp koma á farsælan hátt. Giljaskóli á að vera öruggur vinnustaður þar sem starfið mótast af umhyggju, ábyrgð og lífsgleði. Stefnt að því að nemendur læri að setja sig í spor annarra, sýna umburðarlyndi og bera virðingu fyrir öðrum.

Hvað er einelti?

Einelti er endurtekið ofbeldi, líkamlegt eða andlegt, þar sem einn eða fleiri níðast á öðrum, sem á erfitt með að verjast. Einelti getur birst í ýmsum myndum þótt algengast sé að flokka það í tvo flokka, andlegt og líkamlegt.

Einelti getur verið

  • Líkamlegt: barsmíðar, spörk, hrindingar eða skemmdarverk 
  • Munnlegt: uppnefni, niðrandi athugasemdir og endurtekin stríðni 
  • Skriflegt: tölvuskeyti, sms–skilaboð, bloggsíðuskrif, krot og bréfasendingar 
  • Óbeint: baktal, útskúfun eða útilokun úr félagahópi
  • Efnislegt: eigum barnsins stolið eða þær eyðilagðar
  • Andlegt: þegar barnið er þvingað til að gera eitthvað sem stríðir algjörlega gegn réttlætiskennd þess og sjálfsvirðingu.

Einelti er ofbeldi sem getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér bæði fyrir þolanda og geranda. Andlegt ofbeldi, eða áreiti, hefur oft verri afleiðingar í för með sér en líkamlegt. Einelti hefur iðulega alvarleg áhrif á nám, líðan og félagsþroska einstaklinga.

Aðgerðateymi

Aðgerðateymi hefur umsjón með og sinnir faglegri forystu í eineltismálum innan skólans og veitir kennurum, nemendum og foreldrum leiðsögn. Í aðgerðateymi eru: Skólastjóri, aðstoðarskólastjóri, deildarstjóri og námsráðgjafi. Ef grunur um einelti vaknar er unnið eftir eineltisáætlun Giljaskóla.

Forvarnir til að koma í veg fyrir einelti

Mikilvægt er að börn séu alin upp við jákvæða athygli. Sjálfsöruggt barn er síður líklegt til að vera lagt í einelti og er betur í stakk búið til að takast á við stríðni og einelti. Forvarnir og almennar fyrirbyggjandi aðgerðir í Giljaskóla snúa m.a. að:

  • Áhersla á jákvæðan, lýðræðislegan skólabrag
  • Vinna með áherslur í sýn skólans og leitast við að láta þær einkenna vinnubrögð og viðmót starfsmanna
  • Öflugt samstarf heimila og skóla frá byrjun skólagöngu
  • Reglulegir bekkjarfundir þar sem rætt er um samskipti innan hópsins og við aðra 
  • Fræðsla um einelti fyrir nemendur, foreldra og starfsfólk 
  • Opin umræða um einelti í bekkjardeildum, t.d. með lestri á sögum og umræðum um einelti, hegðun, samskipti og líðan 
  • Árlegar tengslakannanir og úrvinnsla þeirra
  • Aðstoðarmenn úr hópi bekkjarfélaga fyrir nýja nemendur 2. – 10. bekkjar 
  • Gott samstarf vinabekkja þar sem eldri nemendur eru hvattir til að gæta þeirra yngri
  • Skipulagðir leikir og leikjastöðvar í frímínútum 
  • Virk gæsla í vinnuhléum, á göngum, í matsal, á útisvæði og í íþróttahúsi. 
  • Skipulag kennslu taki mið af þjálfun nemenda í samvinnu og samstarfi. 
  • Áhersla á góða bekkjarstjórnun, reglusemi og öguð vinnubrögð 
  • Skilvirkt upplýsingaflæði 
  • Regluleg endurskoðun eineltisáætlunar Giljaskóla.