Markmið skólareglna Giljaskóla eru að allir nemendur geti þroskað hæfileika sína og séu öryggir í öllu starfi á vegum skólans. Viðfangsefni allra í skólasamfélaginu er að byggja upp góðan starfsanda og jákvæðan skólabrag þar sem öryggi, vellíðan, heilbrigði og jákvæðni einkenna öll samskipti. Ennfremur að stuðla að góðu samstarfi og samráði milli foreldra og skóla um nám nemenda, hegðun og samskipti. Starfsfólk skóla og foreldrar þurfa að leitast við að vera nemendum góðar fyrirmyndir.
Í reglugerð um ábyrgð og skyldur segir m.a. „Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks skóla, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin.“ Skólareglur gilda í skólanum, íþróttahúsum, sundstöðum, félagsmiðstöðvum og í öllum ferðum á vegum skólans en auk þess þurfa nemendur að fara eftir sérreglum sem gilda á þessum stöðum.
Börn læra hegðun með því að skoða framkomu fullorðinna og bregðast við væntingum þeirra. Í yngstu árgöngum grunnskóla er umsjónarkennari mikilvægasti fullorðni einstaklingurinn sem börn læra af. Kennarar eru ábyrgir fyrir námsárangri nemenda en jafnframt ræktun samskipta sem einkennast af virðingu, ábyrgð og metnaði.
Hluti af af því að byggja upp jákvæða hegðun snertir skipulag og innihald náms og vinnubrögð. Fjölbreytni í kennsluháttum, uppbrot á milli námslota, hvatning, metnaður, hlustun og áhugi á velferð hvers nemanda skiptir verulegu máli. Í vinnubrögðum og viðmóti birtist fagmennska kennara, þangað horfa nemendur til að lesa viðhorf kennara og væntingar. Vinnubrögð og viðmót endurspegla gildismat kennara fremur en orðræða hans.
Samskipta- og uppeldisstefna Giljaskóla kallast Uppeldi til ábyrgðar, í daglegu tali Uppbygging. Hana má kalla samræðu til sjálfsstjórnar. Stefnunni er ætlað að ýta undir skilning nemenda á lífsgildum og siðferðisviðmiðum, eigin þörfum, ábyrgð þeirra á eigin hegðun og þjálfa þá í tjáningu tilfinninga sinna og skilvirkri úrvinnslu mála. Markmiðið er að hver og einn taki sjálfstæðar, meðvitaðar ákvarðanir um eigin hegðun og vinnu. Verkfæri Uppbyggingar henta mjög vel til að virkja nemendur og fá þá með sér í að byggja upp góðan starfsanda. Bekkjarsáttmáli, hlutverkalýsingar, bekkjarfundir, stutt inngrip, lykilspurningar, sáttarborð/friðarborð, fimm vonlaus viðbrögð, kennsla um þarfir ofl. stuðlar að skilningi á eigin ábyrgð og því að allir eigi rétt á að uppfylla þarfir sínar. Í þeim tilvikum sem þessi nálgun dugar ekki þarf hins vegar að grípa til annarra úrræða til að stöðva neikvæða hegðun.
Kennari þarf að vera góð fyrirmynd. Hann ræður og leggur línur. Það er galdur að vera bæði strangur og góður, strangur á reglum og skipulagi en góður við einstaklinga. Reglur mega ekki vera of margar og gott getur verið að æfa hverja reglu fyrir sig. Það er betra að byrja á því að skapa festu og ramma og slaka síðan á þegar tækifæri gefst. Það er mjög erfitt að laga/breyta hegðun sem búið er að festa í sessi en það er hægt.
Börn sem eiga erfitt með að stjórna eigin hegðun þurfa skýra ramma og mikla festu. Það gildir um mjög mörg börn í dag, enda virðist almennt hafa dregið úr festu og skipulagi í uppeldi. Nemendur hafa þörf fyrir skýr skilaboð, skýrar leiðbeiningar, reglusemi og jákvætt viðmót. Þá líður þeim vel.
Traust er grundvallarforsenda uppbyggilegra samskipta. Traust líkist safanum sem berst frá rótum trésins, upp stofninn og út í greinar og blöð. Skorti traust næst minni árangur, samskiptin veslast upp, vonbrigði og vantrú taka yfir, fyrirmæli, tilmæli og samtöl falla ekki í frjóan jarðveg. Kennarar verða að vinna sér inn traust nemenda. Það gera þeir með því að vera sjálfum sér samkvæmir, sýna nemendum áhuga, hvetja þá og vinna að velferð þeirra með ráðum og dáð jafnvel þótt kennarar standi fastir fyrir þegar kemur að starfsaga og bekkjarstjórnun.
Ýta þarf undir jákvæðni og sjálfsvirðingu hjá nemendum með því að sýna þeim hlýhug, hrósa, brosa og snerta. Orðaval, tónn, andlitsdrættir og líkamsbeiting skipta mjög miklu máli. Gott er að nota sem oftast „ég-boð“, tala út frá sjálfum sér en ekki benda og segja „þú ert...“, „þú átt...“, „þú...“, þannig átta nemendur sig á því að það er ábyrgð og skylda kennara að láta kennslustundir ganga vel fyrir sig, annars er Giljaskóli ekki góður skóli.
Það þarf að stöðva óæskilega hegðun nemenda strax, hvar sem hún kemur fyrir, í kennslustund, á sal, bókasafni, rútu eða á sýningum.
Í Uppbyggingarstefnu reyna kennarar að temja sér ákveðið tungumál og tillitssemi. Áður en gripið er til aðgerða hefur kennari reynt að fá nemanda til að axla sína ábyrgð og velja rétta hegðun. Til þess eru m.a. notaðar setningar eins og:
-
Get ég aðstoðað þig?
-
Veistu hvað þú átt að vera að gera núna?
-
Geturðu verið byrjaður/byrjuð eftir eina mínútu?
-
Veistu hver reglan er?
-
Þú veist að ef þú lagar þetta (hegðunina) ekki strax þá verð ég að grípa til aðgerða, er það ekki?
-
Ég vil frekar að við leysum málið núna en að vísa þér út/í hegðunarver.
Markmiðið er að nemandi geti snúið af rangri braut og valið „rétta hegðun.“ Kennarar geta verið mislagnir við þessa nálgun til að byrja með en mikilvægt er að gefast ekki upp því að hún virkar vel og skilur eftir tilfinningu um að kennari hafi stefnt að því að vera sanngjarn og vilji vel.
-
Börn ganga alltaf lengra og lengra ef þau finna ekki fyrir mörkum, finna ekki hver ræður og fá ekki skilaboð um hvernig hegðun er viðeigandi. Þegar óæskileg hegðun er stöðvuð á að ræða um hegðunina en ekki einstaklinginn og gjarnan vísa í hlutverk og bekkjarsáttmála. Nota þarf nógu sterk viðbrögð/viðurlög til að stöðva hegðunina en þó ekki of sterk því slíkt brýtur niður bæði traust og sjálfsvirðingu.
-
Góður kennari hugsar um hópinn fyrst, síðan um að sinna einstaklingum
-
Festa og reglur byggja upp góðar vinnuvenjur og hjálpa kennara að halda aga
-
Jafnvel yngstu börnin eru ekkert ”svo” lítil. Þau eru byrjuð í skóla og eiga að þroskast við það að gerðar séu kröfur til þeirra. Maður er jafn góður með því að setja ramma í stað þess að knúsa (líklega betri). Munurinn er sá að með rammanum erum við góð við alla í einu en ekki bara við það barn sem er í fanginu á okkur í það skiptið
-
Fara þarf yfir daginn áður en byrjað er að vinna. Þá vita nem. alveg til hvers er ætlast og það léttir álagi af þeim sem eru óöruggir, t.d. ADHD börnum. Þannig þarf einnig að fara yfir hverja vinnulotu. Mjög gott er að skrifa skipulag á töflu þegar þau eru farin að geta lesið
-
Best er að byrja alla daga eins. Með því móti skapast öryggi og aðhald. Nem. eiga t.d. að sitja hljóðir í sætum sínum meðan kennari fer yfir dagsskipulagið og skipulag fyrstu vinnulotu
-
Upphaf og lok kennslustundar ætti alltaf að hafa skýr og vel afmörkuð. Í lok vinnulotu er nauðsynlegt að hafa tíma til frágangs/tiltektar og gott er að spjalla um hvernig gekk, hrósa þá fremur en gagnrýna þegar það er hægt
-
Tímavakar geta verið góð lausn fyrir einstaklinga sem eiga erfitt með einbeitingu og einnig til að halda utan um vinnulotur bekkjardeilda
-
Kenna þarf nemendum að ganga frá útifötum og halda utan um sínar eigur
-
Kenna þarf nem. að rétta upp hönd til að fá aðstoð. Þá má aldrei fara beint til þeirra sem eru að hrópa (þá læra þau ekki regluna)
-
Gott að koma upp merki til að fá fram þögn. Ekki má halda áfram fyrr en þögnin er komin. Merkjamál og vísbendingar draga úr nöldri og/eða hrópum
-
Þegar ná þarf hávaða niður í vinnuklið eða þögn er gott að hafa komið upp ákveðnu merki. Hávaðaskífa er möguleg leið (gulur, rauður, grænn litur á skífu; dregur úr því að kennari þurfi að kalla yfir hópinn)
-
Tala skýrt og rólega. Að hækka röddina til að yfirgnæfa og ná stjórninni er eins og að nota háhælaða skó til að verða hávaxnari
-
Þegar búið er að festa reglur í sessi verður innlögn auðveldari og tími gefst til að aðstoða þá sem þurfa frekari aðstoð
-
Mikilvægt að kennari sé hreyfanlegur í skólastofunni
-
Tölvunotkun kennara í skólastofu á að vera í lágmarki, hringingar og/eða símtöl einnig
-
Stundvísi er mikilvæg og einnig er mikilvægt að virða lengd kennslustunda. Ef 5 mín. eru teknar af hverri kennslustund skerðist kennsla nemenda um 4 vikur á einu skólaári (5 x 32 (mtal kest á viku) x 32 (virkar kennsluvikur í skólaári) = 5.120 mín / 40 (mín í kest) / 32 (kest á viku) = 4 vikur)
-
Almenn umgengni í skólastofunni og annars staðar þarf að vera í lagi. Fara þarf vel yfir hlutverk nemanda í skólastofu (hegðun, vinnubrögð, vinnusemi o.þ.h.)
-
Alltaf á að vísa til hlutverka og/eða bekkjarsáttmála og/eða skólareglna þegar tekið er á frávikum/mistökum. Farsælast er að opna slíkar samræður alltaf með spurningum, einni eða fleirum
-
Fara vel yfir hlutverk nemenda á göngum og taka alltaf á frávikum
-
Fara þarf ítrekað yfir hlutverk nemenda í samskiptum við aðra nemendur og starfsmenn
-
Best er að áminna í einrúmi en hrósa svo aðrir heyri til
-
Nota skal eins veika „refsingu“ og hægt er til að stöðva neikvæða hegðun, hún verður þó að duga til að stöðva hegðunina
-
Nota má uppröðun í stofu og skipan í sæti til að draga úr neikvæðri hegðun
-
Ef nemandi bregst ekki við beiðni/fyrirmælum bjóða þá tvo kosti og látið nem. velja hvort hann bregst strax/fljótt við eða við taki ákveðið ferli/refsing. Stundum getur verið gott að bjóða eina mínútu eða tvær og standa þá við að setja í gang ferli/refsingu hafi hegðun ekki breyst
-
Nauðsynlegt er að segja hvað maður meinar og meina það sem maður segir
-
Gott er að kortleggja bekkinn í upphafi út frá hegðun og námslegri stöðu.
Allir nemendur geta lært að hegða sér sómasamlega í skóla.
Allir kennarar geta bætt stjórnunarhætti sína og starfsaðferðir.
Við gerum öll mistök en þurfum að fyrirgefa þau og horfa til framtíðar.
Sýn / Viðleitni
Það sem við viljum að einkenni starfsmenn og nemendur
Viðhorf
-
Sjálfstraust
-
Bjartsýni
-
Trú
-
Þrautseigja
-
Gleði
-
Ábyrgð
-
Sanngirni
-
Virkni
-
Áhugi
-
Metnaður
-
Hollusta
-
Hugrekki
-
Sveigjanleiki
|
Vinnubrögð
-
Þrautseigja
-
Atorka – dugnaður
-
Sköpunargleði
-
Hvatning
-
Hreinskiptni
-
Stuðningur
-
Undirbúningur
-
Vandvirkni
-
Samræða – rökræða
-
Samráð
-
Einbeiting
-
Virk hlustun
-
Skipulag
|
-
Bjartsýni
-
Bros
-
Snerting
-
Hvatning
-
Traust
-
Þolinmæði
-
Fyrirgefning
-
Trú
-
Gleði
-
Þakklæti
-
Jafnvægi
-
Virðing
|