Núvitund

Núvitund er þýðing á enska orðinu Mindfulness. Núvitund er þjálfuð með íhugun og einbeitingu í gegnum ýmsar einfaldar æfingar. Almennt er athyglinni beint að þrennu: líkama, öndun og hugsunum. Í byrjun æfingar er athygli oftast beint að líkamanum, hvar og hvernig við komum okkur fyrir svo okkur líði vel og getum slakað á, hvað við heyrum og finnum. Þá er hugað að önduninni, fylgst með hvernig öndunin fer fram án þess að reyna að breyta henni. Loks er ýmist fylgst með því hvernig hugsanir koma og fara, skarast jafnvel þannig að margar eru í gangi í einu, eða skilningarvitin notuð til að beina athyglinni að tilteknum hlutum, eða hugurinn leiddur áfram í gegnum ímyndaðar aðstæður. Ekki er reynt að tæma hugann, heldur ekki reynt að bægja frá erfiðum hugsunum og enn síður reynt að stjórna ytri áreitum. Með því að einbeita sér að því sem er að gerast í núinu minnkar kvíði vegna framtíðar og vanlíðan vegna erfiðra hugsana um fortíðina. Rétt eins og við þurfum að þjálfa vöðva til að ná árangri í íþróttum þá er hægt að þjálfa heilann til að verjast erfiðum hugsunum og tilfinningum og fjölga þeim jákvæðu og uppbyggilegu.

Áhugi á að nota núvitund í skólum fer vaxandi. Auk þess hefur rannsóknum á áhrifum núvitundar hjá börnum og unglingum fjölgað á síðustu árum. Vitað er að stöðugt áreiti nútímaþjóðfélags getur dregið úr hæfni barna og unglinga til að stunda nám. Það getur einnig haft hamlandi áhrif á tengsl við annað fólk. Niðurstöður nokkurra rannsókna erlendis sýna að núvitundarþjálfun í skólum getur bætt heilsu nemenda. Á það við um andlega, líkamlega og félagslega heilsu. Sýnt hefur verið fram á að núvitund getur dregið úr kvíða og streitu, eflt skapandi hugsun, sjálfsstjórn, einbeitingu, félagshæfni og aukið sjálfsálit og sjálfsöryggi sem og hamingju og bjartsýni.

Í Giljaskóla er núvitund þjálfuð með öllum nemendum. Í 3., 5. og 8. bekk eru námskeið í 8 – 10 vikur, eina kennslustund í viku. Í öllum árgöngum eru skipulögð tímabil þar sem núvitundaræfingar eru gerðar daglega. 

 

Bæklingur

Kynning á núvitund

Hljóðskrár

Skýrsla um núvitund (2014)

Rannsóknarniðurstöður

Æfingahefti

 

Vallhumall