Sjálfbærni

Sjálfbærni er skilgreind sem einn af grunnþáttum menntunnar samkvæmt þeirri Aðalnámskrá sem nú er í gildi. Sjálfbærni felst í því að huga að samspili umhverfis, félagslegra þátta og efnahags. Hugtakið er nátengt umhverfisvernd og ein áherslan er að skila umhverfinu til næstu kynslóða í sama eða betra ásigkomulagi en tekið var við því. Því er mikilvægt að átta sig á lögmálum náttúrunnar, ferlum og hringrásum sem hún takmarkast við. Grunnþættirnir eiga að fléttast inn í allt skólastarf og endurspeglast í daglegu starfi.

Til að mæta þessu markmiði hefur list- og verkgreinateymi Giljaskóla kosið að leggja sérstaka áherslu á sjálfbærni, eina viku í senn hvora önn. Í sjálfbærniviku leggur list- og verkgreinateymi Giljaskóla sérstaka áherslu á sjálfbærni og leitast við að starfið endurspegli þetta markmið. Sjálfbærni er því höfð að leiðarljósi hvað varðar efnisval og inntak náms og kennslu og starfshættir og aðferðir eru valdir út frá þessari áherslu. Tilgangur verkefnisins er að efla samábyrgð nemenda fyrir umhverfinu og samfélaginu sem allir tilheyra.