Formaður SAMTAKA, félags foreldrafélaga á Akureyri hefur vakið máls á því í fjölmiðlum að sá matur sem börnunum í leik- og grunnskólum Akureyrarbæjar er boðið upp á, sé ekki ásættanlegur og ekki í samræmi við lýðheilsumarkmið Landlæknisembættisins.
Allt frá árinu 2012 hefur skóladeild, í góðu samstarfi við skólastjórnendur og matráða skólanna, farið í gagngera endurskoðun á matseðlum skólamötuneyta. Meginmarkmiðið með þessari breytingu var að tryggja að öllum skólabörnum standi til boða hollur og næringarríkur hádegisverður. Tilgangurinn með þessum breytingum var einnig að gera foreldrum kleift að fylgjast vel með þeirri næringu sem skólinn býður upp á. Þeir hafa m.a. verið samræmdir bæði í leik- og grunnskólum til að mæta óskum fjölskyldna þannig að hægt sé að hafa kvöldverð heimilisins með tilliti til þess sem börnin fengu í hádeginu.
Allar uppskriftir sem notaðar er í skólamötuneytum Akureyrarskólanna hafa farið í gegnum greiningu hjá Rannsóknarstofunni Sýni undir stjórn Guðrúnar Adolfsdóttur matvælafræðings, einmitt til að tryggja að þær fullnægi kröfum um lýðheilsumarkmið Landlæknisembættis. Til þessa fyrirkomulags hefur sérstaklega verið horft frá öðrum sveitarfélögum og við verið ánægð með okkur að framkvæma þetta með þessum hætti, þrátt fyrir aukinn kostnað.
Þá er virkt eftirlit með innkaupum á hráefni til að tryggja að allt hráefni sem notað er uppfylli gæðakröfur. Því vil ég vísa á bug að ekki sé verið að mæta kröfum um lýðheilsumarkmið Landlæknisembættis.
Uppskriftabankinn er einnig yfirfarinn með það að markmiði að auka fjölbreytni, og gefst skólamatráðum þá tækifæri til að bæta inn í hann nýjum uppskriftum. En alltaf er það háð eftirliti frá Rannsóknarstofunni Sýni hvort uppskriftirnar rata á endanum inn í uppskriftabankann. Ég er mjög þakklát skólamatráðum fyrir að vinna þetta allt saman með okkur.
Aldrei er hægt að gera svo öllum líki og reglulega koma upp herferðir um hollustu og forgang matarflokka í fæðukeðjunni sem mikilvægt er fyrir okkur mannfólkið að neyta. Menn geta alltaf deilt um hvað sé hollt og hvað ekki.
Þjónusta skólamötuneyta hefur mikið verið í umræðunni undanfarin misseri. Það er ljóst að kröfur samfélagsins um góðar, heilsusamlegar skólamáltíðir hafa orðið æ meiri og stundum heyrist að skólamáltíðin sé jafnvel eina heita máltíðin sem sum börn fá. Í kjölfar kreppunnar var lögð á það mikil áhersla að auka gæði skólamáltíða og ég fullyrði að á Akureyri var þetta tekið mjög alvarlega. Það er mikilvægt að hafa opna og gagnrýna umræðu um allt sem snýr að skólastarfinu en einmitt á þessum þætti þess fullyrði ég að við erum að standa okkur vel.
Kostnaður við skólamáltíðir
Hvað varðar athugasemdir SAMTAKA um kostnað við skólamáltíðir og verð til starfsfólks skólanna þá er það svo að í kjarasamningum er kveðið á um máltíðir fyrir starfsfólk í skólum. Í gr. 3.4.1 í kjarasamningi er þess sérstaklega getið að máltíðir á vinnustað skuli vera á hráefnisverði. Eftir því ber okkur að fara. Rekstur skólamötuneytanna var mjög góður síðasta ári og er það fyrst og fremst að þakka meiri fagmennsku á öllum þáttum rekstursins, bæði í innkaupum, hagkvæmni og góðri nýtingu. Matráðarnir eiga þar auðvitað stærstan heiðurinn .
Rétt er að taka fram að í leikskólanum er miðað við að fæðisgjaldið standi undir hráefniskostnaði. Verð á skólamáltíð í annaráskrift á Akureyri er ekki hærra en gengur og gerist í flestum stærri sveitarfélögum á Íslandi. Í hverju sveitarfélagi er það hins vegar pólitísk ákvörðun að taka hluta af rekstri skólamötuneytanna inn í kostnað skólamáltíða. Leitt þykir mér að hinn kraftmikli formaður SAMTAKA skuli ekki hafa vakið máls á þessu við okkur á skóladeild áður, til að þurfa ekki að svara honum á síðum blaðanna. Okkar samstarf hefur verið mjög gott fram til þessa og ég á ekki von á öðru en svo verði áfram.
Soffía Vagnsdóttir
Fræðslustjóri Akureyrarbæjar