Síðustu tvo þriðjudaga höfum við í 5. bekk hitt elstu börnin á Tröllaborgum. Næsta haust, þegar elstu börnin á Tröllaborgum koma í Giljaskóla í 1. bekk verðum við vinabekkurinn þeirra (þá komin í 6. bekk). Við fórum bæði niður á Tröllaborgir og eins komu elstu börnin þar í heimsókn til okkar. Við unnum ýmis verkefni saman, bjuggum til vina-armbönd, aðstoðuðum þau við að búa til ský og regndropa þar sem þau eru að læra um hringrás vatnsins, við lásum fyrir börnin, kenndum þeim aðeins um stafina og föndruðum þá, spiluðum stærðfræðispil og byggðum úr kubbum. Við ætlum svo að hittast aftur með hækkandi sól, leika okkur saman úti og grilla saman pylsur. Fyrst og fremst var frábært að fá að kynnast þessum flottu krökkum á Tröllaborgum og við hlökkum til að verða vinabekkurinn þeirra næsta haust.
Myndir af þessum vinafundum okkar má finna á heimasíðu Tröllaborgar https://plus.google.com/photos/105376198712376437392/albums/6254877509059333361