Undanfarna daga og vikur hafa borist fjölmargar fréttir frá nokkrum bæjarfélögum á landinu um að menn séu að tæla börn upp í bíl í námunda við skóla með ýmsum leiðum svo sem að bjóða þeim sælgæti eða bjóðast til að keyra þau upp á spítala þar sem mamma þeirra er sögð dvelja eftir að hafa slasast. Málið hefur vakið óhug margra og foreldrar hafa verið hvattir til að ræða við börnin sín um hvernig eigi að bregðast við slíkum aðstæðum og brýna fyrir þeim að setjast ekki upp í bíl hjá ókunnugum.
Mikilvægt að við foreldrar leggjum okkur fram við að fræða börnin okkar á hreinskilinn hátt um þær hættur sem geta falist í samskiptum við ókunnuga án þess þó að hræða þau. Við þurfum að ræða af yfirvegun og á varfærinn hátt við þau þar sem afleiðingar þess að hræða líftóruna úr þeim geta verið margvíslegar. Þess eru dæmi að börn hafa orðið það hrædd eftir að heyra um hættuna af ókunnugum mönnum sem lokka börn upp í bíla að þau treysta sér ekki lengur til að ganga ein í skólann, ganga ein heim eða fara út fyrir hússins dyr. Sum börn eru það kvíðin að þau tilkynna skólanum og foreldrunum um alla þá karlmenn sem eru nálægt grunnskólunum jafnvel þó að þeir hafi ekki neitt illt í hyggju. Sum eru skelfingu lostin, treysta sér jafnvel ekki í skólann aftur, eru andvaka eða þurfa að leita sálfræðings.
Spjöllum við börnin um hætturnar á yfirvegaðan hátt og lítum á þessa fræðslu sem hluta af almennum forvörnum.
Stjórn Heimilis og skóla - Landssamtaka foreldra
Hér að neðan er einnig að finna tengla á umfjallanir um þessi mál:
Ísland í bítið, 21. mars 2011 - viðtal við sálfræðing
Reykjavík síðdegis, 10. mars 2011
Reykjavík síðdegis, 5. september 2011
Ísland í dag, 2. september 2011, viðtal við sálfræðing