Á haustin þegar skólinn byrjar fá börn og foreldrar þeirra langan innkaupalista. Það sem listinn hefur að geyma eru stílabækur, alls konar möppur, reiknivélar, reglustikur og margt fleira. Þegar börn eru að byrja í grunnskóla þá er ekki til neitt gamalt skóladót sem hægt væri að nýta heldur þarf að kaupa allt nýtt og við þennan lista bætist líka skólatöskur, pennaveski, nestisbox og íþróttapokar svo eitthvað sé talið upp. Þetta kostar foreldra mjög mikinn pening og sumir hafa hreinlega ekki efni á þessu og ég tala nú ekki um ef þeir eru með mörg börn í skóla. Það er til mikið úrval af allskonar skóladóti eins og Spiderman, Hello Kitty, Cars og fleira vinsælt efni þannig að krakkarnir hafa um mikið að velja. Eiginlega alltof, alltof mikið. Að sjálfsögðu vilja krakkarnir fá það flottasta eins og Spiderman stílabækur en sumir foreldrar hafa bara ekki tök á að kaupa það. Síðan eru bláar, gular, rauðar eða grænar stílabækur bara ekkert verri en allar þessar frægu teiknimyndabækur.
Hvernig væri að skólinn myndi bara kaupa allar bækur og hafa þær allar eins? Það er miklu ódýrara að kaupa bækur og annað skóladót í miklu magni heldur en í stykkjatali. Þetta myndi spara foreldrum mikinn pening og minnka álag á foreldra í byrjun skóla.
Væri ekki miklu sniðugara að fara þessa leið til að minnka kostnað og peningaáhyggjur hjá foreldrum? Ef þetta yrði gert gæti einelti og stríðni líka mögulega minnkað af því að þá væru allir jafnir og enginn væri að metast með sitt skóladót. Vinnufriðurinn í tímum myndi örugglega verða betri því þá þyrftu krakkarnir ekki að skoða dótið hjá hvorum öðrum af því að allir væru með eins skóladót. Þetta væri mögulega hægt að gera með því að foreldrar greiddu eitthvað ákveðið vetrargjald sem skólinn myndi setja upp. Það myndi auðvelda allt.
Alexander Örn Ómarsson 10.IDS