Á næstu dögum munu nemendur fá kynningu á börnunum tveimur sem nemendur og starfsmenn í Giljaskóla styrkja. Frá árinu 2007 höfum við styrkt tvö börn, strák og stelpu. Frá 2012 höfum við styrkt stelpu í Indlandi sem heitir Venkateswaramma. Hún er fædd árið 2005 og býr á heimili Litlu ljósanna. Hún kemur frá mjög fátæku heimli, faðir hennar er látinn og móðir hennar getur ekki séð fyrir henni. Við hjálpum henni að eiga betra líf með því að greiða fyrir hana skólagöngu og fulla framfærslu í heimavistarskóla.
Við vorum að styrkja strák í Uganda sem heitir Vincent en nú er hann fluttur og við höfum tekið að okkur strák sem heitir Sunday Opiyo, hann er fæddur árið 2010 og býr líka í Uganda. Hann býr hjá foreldrum sínum ásamt fjórum systkinum. Þau stunda garðyrkjubúskap en eru mjög fátæk og hafa ekki efni á að borga skólagjöld. Sunday hefur gaman af að spila fótbolta og á sér þann draum að verða læknir. Við styrkjum hann svo hann geti farið í skóla og þar fær hann eina máltíð, einnig fær hann heilsugæsluþjónustu.
Það sem við þurfum til að styrkja þessi tvö börn er um 9.000 kr á mánuði. Ef öll heimili sem eiga nemendur í skólanum koma með 4-500 krónur þá náum við að safna nægum pening sem dugar til að styrkja þau allt næsta ár. Sparibaukar verða í kennslustofum fram að jólaleyfi og vonumst við til að flestir taki þátt og leggi sitt af mörkum (upphæðin er að sjálfsögðu frjáls, má vera lægri eða hærri).
Það er trú okkar að með þessu séum við að sá fræum til nemenda Giljaskóla um að við þurfum að hugsa um minnstu bræður okkar í fjarlægum löndum. Þau koma okkur við og við getum haft áhrif þó við búum á hinu kalda Íslandi. Margt smátt gerir eitt stórt.