BEST 2009

Giljaskóli í úrslitum lokakeppni BEST 2009

Giljaskóli keppir í úrslitum BEST  21. og 22. apríl eftir að hafa unnið sér inn keppnisrétt í vetur ásamt tíu öðrum skólum á landinu. Lokakeppni BEST er nú haldin í Hafnarfirði.
Ellefu lið hafa unnið sér inn keppnisrétt í ár, fjögur lið utan af landi og sjö af höfuðborgarsvæðinu.
Þessi lið eru: 9.BG Árbæjarskóla, 9.D Digranesskóla, 9.1 Foldaskóla, 9046-1 Garðaskóla, 9.BKÓ Giljaskóla,
9. bk. Grunnskóla Reyðarfjarðar, 9.H Grunnskólanum í Hveragerði, 9.BA Hlíðaskóla, 9. bk. Hvolsskóla,
9. ÞÁ Lindaskóla og 9.SHS Víðistaðaskóla.

Dagskrá keppninnar verður sem hér segir:
Þriðjudagur 21. apríl:
- Kl. 10 Keppnin sett í Bókasafni Hafnarfjarðar. Setning: Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri.
- Kl. 13-15 Keppni 11 fjögurra manna liða í Hásölum til undanúrslita.
- Kl. 17-19 Kynningar á verkefnum í Bæjarbíó. OPIÐ ÖLLUM.
- Kl. 22 Undanúrslit kynnt í Bæjarbíó.
Miðvikudagur 22. apríl:
- Kl. 9-13 Úrslitakeppni þriggja liða á sviði Bæjarbíós. OPIÐ ÖLLUM.
Hluti keppninnar fer fram fyrir opnum tjöldum og er hægt að fylgjast með þeim hluta keppninnar sem fram fer í Bæjarbíó meðan húsrúm leyfir.
Þá er sýningin á verkefnum bekkjanna ellefu í Bókasafni Hafnarfjarðar opin fyrir almenning báða keppnisdagana á opnunartíma bókasafnsins.

BEST stærðfræðikeppnin
Sumarið 2001 buðu norskir fulltrúar í norrænu samstarfsnefndinni fyrir heimsþing um stærðfræðimenntun, ICME- 10, fulltrúum hinna norrænu landanna að velja einn bekk sem fengi að senda fulltrúa sína í undanúrslit stærðfræðikeppninnar KappAbel í Noregi. Uppruni nafnsins KappAbel er í Froland í suður-Noregi þar sem stærðfræðingurinn Abel lést árið 1829.
Á Íslandi hófst keppnin í öllum 9. bekkjum veturinn 2001- 2002 og fóru fulltrúar bekkjarins sem sigraði til norsku keppninnar vorið 2002 og stóðu sig afar vel. Næsta ár eftir slógust Danmörk og Svíþjóð í hópinn og svo Finnland. Norræna samstarfsnefndin fyrir ICME-10 vildi þróa slíka keppni á norrænum grundvelli og fékkst fjárveiting frá Norrænu ráðherranefndinni árið 2003 til að hefja það verk.
Norðmenn vildu eigin keppni og því varð úr að til varð sérstök norræn stærðfræðikeppni. Norræna ráðherranefndin samþykkti að veita fé til að þróa keppni í stíl við norsku keppnina KappAbel og það hefur verið gert innan hinna landanna.
Á Íslandi hefur verið leitað að lýsandi heiti fyrir keppnina,sem einnig ætti sér stutta útgáfu. Þetta heiti er: Bekkirnir keppa í stærðfræði og er stytt í BEST. Víðistaðaskóli hefur tvisvað unnið keppnina á Íslandi og keppt í norrænu keppninni og staðið sig mjög vel þar.