Dagur íslenskrar tungu 16. nóvember er haldinn hátíðlegur í Giljaskóla í dag. Að venju var valið skáld dagsins. Að
þessu sinni verða skáldin nokkur því ákeðið var að velja skáld sem eiga tengsl við Akureyri með einhverjum hætti. Munu
nemendur vinna með verk þeirra á næstunni.
Samkoma var á sal skólans í morgun þar sem nemendur úr fyrsta til sjöunda bekk fluttu og kynntu ýmis verk Þorvaldar Þorteinssonar,
Heiðdísar Norðfjörð, Magneu frá Kleifum, Jennu og Hreiðars, Davíðs Stefánssonar, Kristjáns Jónssonar (Káinns) og Brynhildar
Þórarinsdóttur.
Aðstoðarskólastjóri setti samkomuna, kynnti höfundana lauslega og setti einnig Stóru Upplestarkeppnina. Það er orðin hefð að setja hana
formlega á þessum degi og eiga sjöundu bekkingar mikla vinnu framundan við að æfa sig í framsögn því ekki megum við láta deigan
síga, því í hitteðfyrra áttum við sigurvegara keppninnar á Akureyri Evu Laufeyju Eggertsdóttur. Sigurvegari skólans í fyrra
var Amanda Helga Elvarsdóttir og stóð hún sig mjög vel í úrslitakeppninni þó ekki hafi hún haft sigur.
Á samkomunni í morgun sungu fyrstu bekkingar lag úr Skilaboðaskjóðunni eftir Þorvald Þorsteinsson. Annar bekkur flutti ljóðið Barn
eftir Heiðdísi Norðfjörð. Þriðji bekkur las upp bréf um framtíðarsýn Magneu frá Kleifum og sögðu þau einnig frá
framtíðinni eins og þau sjá hana. Fjórði bekkur flutti kynningu á Öddubókunum eftir Jennu og Hreiðar. Fimmti bekkur kynnti
Davíð Stefánsson og flutti þrjú ljóða hans og sungu svo Kvæðið um fuglana. Sjötti bekkur kynnti nokkur ljóð eftir
Káinn og spilaði lagið Sólskin í Dakóta með Baggalút. Sjöundi bekkur las úr bókinni Leyndardómur ljónsins eftir
Brynhildi Þórarinsdóttur.
Allt tókst þetta með ágætum. Sjá myndir hér.
Nemendur í 8.- 10. bekkur komu saman að venju í Brekkuskóla, Síðuskóla og Lundarskóla þar sem þau öttu saman
liðum í kappræðum og skiptust í lið sem voru með eða á móti nokkrum málefnum. Að þessu sinni var tekist á um
heimanám, frjálsar mætingar, skólabúninga og hækkun ökuleyfisaldurs.