Dagur læsis/ Bókasafnsdagurinn- Læsi, lestur og læsisátak

8. september, var Dagur læsis/Bókasafnsdagurinn. Þá var mikið um dýrðir víðs vegar um bæinn og á landinu öllu. Allir nemendur 1. bekkjar á landinu fengu í tilefni dagsins bókargjöf, bókina Nesti og nýir skór sem hefur að geyma ýmsa sígilda texta fyrir börn. Í Giljaskóla komu þær Herdís Anna, barnabókavörður af Amtsbókasafninu og Sigurbjörg Rún frá Skóladeild færandi hendi. Öll börn í 1. bekk komu á skólasafnið með kennurum sínum og veittu viðtöku þessari glæsilegu bókargjöf. Það voru spennt og skælbrosandi börn sem röltu inn í stofu með nýju bókina sína og hvetjandi skilaboð til forráðamanna í tilefni dagsins.

Nemendur í öðrum bekkjum skólans fengu bókarmerki með slagorðinu Lestur er bestur að gjöf frá skólasafnskennara.

Læsisátak er nú um land allt og hvetjum við, starfsfólk skólans, nemendur og forráðamenn þeirra til að efla lestur og læsi okkur öllum til ánægju og gagns.