Fanney Lind og Binni með viðurkenningar sínar
Laugardaginn 5. júní kl. boðaði skólanefnd Akureyrarbæjar til
samkomu í Listasafninu þar sem sjö nemendum og átta kennurum og starfsmönnum við grunn- og leikskóla Akureyrarbæjar var veitt viðurkenning fyrir
að hafa skarað fram úr í starfi. Þetta er í fyrsta sinn sem skólanefnd stendur fyrir samkomu sem þessari en hún er í samræmi
við áherslur í skólastefnu Akureyrarbæjar.
Óskað var eftir tilnefningum frá starfsmönnum, skólum og foreldrum um nemendur og strarfsmenn eða verkefni
sem talin voru hafa skarað fram úr. Alls bárust 28 tilnefningar um starfsmenn eða verkefni og 25 tilnefningar um nemendur. Valnefnd sem skipuð var fulltrúum
frá skólanefnd, samtökum foreldra og Skólaþróunarsviði HA fór yfir allar tilnefningar og gerði tillögu til skólanefndar sem
samþykkti síðan viðurkenningarnar.
Fanney Lind Pétursdóttir, nemandi í 10. BKÓ, hlaut viðurkenningu fyrir einstaka framkomu, ábyrgð, kurteisi, hjálpsemi og gleði. Fanney hefur góða nærveru. Þeir
sem umgangast Fanneyju líður vel í návist hennar. Hún er þeim hæfileika gædd að geta styrkt sjálfsmynd þeirra sem hún
á í samskiptum við. Látlaus framkoma, hlýja og jákvætt viðmót eru allt eiginleikar sem henni eru tamir. Hún gerir ekki mannamun og ber
ávallt virðingu fyrir einstaklingnum eins og hann er. Fanney hefur heilbrigða hugsun. Hún breytir rétt, jafnvel þó aðstæður geti verið
erfiðar eins og gjarnan er á unglingsárum. Hún lætur ekki hópþrýsting trufla sig heldur fylgir hjartanu og því sem samviskan segir
henni. Hún er gjarnan fyrst til að hlaupa undir bagga með þeim sem af einhverjum ástæðum eiga undir högg að sækja. Það sem greinir hana
frá fjöldanum er að hún sýnir þessa samkennd í verki. Fanney Lind er góð stúlka sem með einlægni sinni og hófsemi
auðgar tilveru þeirra sem hana þekkja.
Brynjar Karl Óttarsson, unglingastigskennari, hlaut viðurkenningu fyrir verkefnið
Grenndargralið sem hann hefur lagt mikinn tíma og metnað í undanfarin ár. Með verkefninu er stefnt að aukinni grenndarvitund nemenda, þ.e. þekkingu
á menningu og sögu þeirra eigin heimabyggðar. Samfélagsfræðin er tengd við daglegt líf nemenda og farið er í spennandi og skemmtilegar
vettvangsferðir og rannsóknarleiðangra. Verkefnið tekur um 10 vikur og lokamarkmiðið er að finna bikar, hið svokallaða grenndargral, veglegan bikar sem
búið er að koma fyrir á vissum stað á Akureyri. Þátttaka í keppninni er valfrjáls fyrir 8. – 10. bekk og sá eða þeir sem finna gralið fá það afhent til varðveislu í eitt
ár við hátíðlega athöfn á sal auk þess sem sigurvegararnir fá verðlaunapeninga til eignar. Allir sem klára þrautirnar tíu
fá viðurkenningarskjal fyrir góða frammistöðu eftir langa og stranga leit.
Síðuskóli á Akureyri tók þátt í verkefninu haustið 2009
ásamt Giljaskóla og Glerárskóli mun bætast við næsta skólaár. Á föstudaginn fengum við síðan tilkynningu um að
Sprotasjóður hefði veitt Giljaskóla 700 þús. króna styrk til að þróa verkefnið áfram. Hver veit nema fleiri skólar
bætist við síðar.
Við óskum Fanneyju og Binna innilega til hamingju með viðurkenningarnar.