Ferð til Vellinge, Svíþjóð. Flogið í gegnum Kaupmannahöfn. Marimbasveitin fór á marimba, djembe og afródans námskeið sem haldið var að kennurum frá Svíþjóð, Noregi og Zimbabwe.
Þriðjudagur 29.apríl/Miðvikudagur 30.apríl 2014
Ásta skrifar: Viðburðarríkur sólarhringur, vægast sagt! Mánudag kl.15:30 kom upp sú hugmynd að flýta flugi um rúman sólarhring vegna yfirvofandi verkfalli flugvallarstarfsmanna. Icelandair bauð okkur að fljúga á þriðjudegi kl.7:45, í stað miðvikudags kl.13:15. Þetta kom sér mjög vel. Lagt var af stað úr Kjarrlundinum kl.22 á mánudagskvöldi og stefnan tekin beint á Keflavíkurflugvöll. Þar hittum við hópinn úr Hafralækjarskóla, sem einnig fóru með okkur út. Flugið var mjög gott og einhverjir gátu dottað eftir næturkeyrsluna. Við græddum auka dag í Malmö þar sem við gátum verslað og notið veðurblíðunnar, ekki nema 20°C og sól J. Við gistum 3 í herbergi á Comfort hotel við lestarstöðina í Malmö. Svakalega nútímalegt og flott hótel. Við sváfum mjög vel og fengum glæsilegt morgunverðarhlaðborð. Töskur voru skildar eftir í lobby-inu eftir úttékk og allir fóru í miðbæ Malmö að versla. Kl 16 hittust allir á Starbucks með góssið sitt. Fórum síðan á hótelið, sóttum farangurinn og löbbuðum á lestarstöðina enn og aftur. Borðuðum þar á Subway/Burger King en hópurinn fékk að velja hvor staðinn þau vildu snæða á. Tókum svo rútu til Vellinge sem er rétt hjá Malmö, ekki nema 25mín akstur. Löbbuðum frá stoppistöðinni í Vellinge – Anger að Listaskólanum þar sem við gistum og námskeiðið var haldið. Peta Axelsson tók á móti okkur og byrjuðum við að koma okkur fyrir. Stelpurnar fóru svo á brennu með nokkrum marimbaunglingum hennar Petu sem eru frá Svíþjóð og Noregi. Ásta, Gestur og strákarnir 3 urðu eftir í skólanum og hvíldu lúna fætur.
Fimmtudagur 1.maí 2014
Eyrún Tanja, Katrín Ósk, Bjarklind Ásta og Guðlaug S. Skrifa: Við byrjuðum daginn snemma, kl.7:30, þá voru allir vaknaðir….flestir. Morgunmaturinn var kl.8-9 og svo var fundur þar sem kennarar voru kynntir og reglur búðanna. Fyrsti tíminn var marimbatími hjá Otto, þar lærðum við 2 lög, Precious Haibo og Dahli. Otto er yndislegur kennari og rosalega glaður og þolinmóður! Það var lasagna í hádeginu og Zimbabwe stelpurnar komust loks á leiðarenda eftir erfitt og viðburðarríkt ferðalag frá Dusseldorf. Anna kenndi okkur næst djembe frá kl.13-13:45. Við lærðum lagið Sonsorne og rifjuðum upp Kakilambe sem við lærðum hjá henni á Húsavík á svipuðu námskeiði 2012. Næst fórum við til Max, Soryba og Andy. Þar dönsuðum við dansinn við Sonsorne. Það elska allir Max! Hann er alltaf jafn glaður, honum kynntumst við líka á námskeiði á Húsavík 2012. Síðan löbbuðum við í Old School þar sem var smá kaffitími og marimbakennsla hjá Petu og Erik. Þar lærðum við lagið Chiro Chacho, brúðkaupslag. Eftir það var bara kvöldmatur, kjúklingabringur. Við nýttum flestar frístundir í snúsnú og við buðum Zimbabwe stelpunum með. Þær voru að prófa þetta í fyrsta sinn og fannst þetta rosalega skemmtilegt. Þær brostu út að eyrum allan daginn, sínu skærasta brosi J. Um kvöldið skiptust allir síðan á myndum og eftir að Zimbabwe stelpurnar fóru var aðallega spilað billjard, hlustað á lög og tékkað aðeins á netið (Kara J). Núna eru alir að fara að sofa og þau bíða eftir að við slökkvum ljósin! Góða nótt.
Föstudagur 2.maí
María Björg, Marta Kristín og Vala skrifa: Í dag vöknuðum við kl.7:45. Við fórum í morgunmat á milli 8 og 9. Í morgunmat var vanillujógúrt, kornflex, múslí, baruð, álegg og drykkir. Fyrsti tíminn okkar var hjá Richard Mike. Lagið sem við lærðum hjá honum heitiri Amai sem þýðir móðir. Síðan fórum við á fund í Concert hall og þaðan fórum við í sund. Eftir sund fórum við í hádegismat og í matinn var súpa. Eftir mat fórum við upp í „old school“ til Önnu og lærðum lögin Gandanga og Chaiaco. Eftir þennan frábæra tíma fengum við æðislegt kaffi sem var perusafi og bollur. Ef þetta æðislega kaffi fórum við í miðbæinn í Velllinge sem var nú ekki rosalega stór. Þegar við vorum búin að labba í smástund fundum við flotta búð sem er eins og Bónus, þar versluðu allir nammi og ýmislegt fleira. Ásta tók mikinn tíma í að skoða þessa búð, þegar við vorum búin að bíða í smástund eftir Ástu ætluðum við að láta kalla hana upp en þá kom hún! Svo löbbuðum við heim hægt og rólega. Þegar við komum heim horfðum við á mynd og spiluðum jungle speed. Þegar við vorum búin að spila í smástund komu stelpurnar frá Zimbabwe og við kenndum þeim jungle speed og þær brostu út að eyrum. Á milli kl.6 og 7 fórum við í kvöldmat, fengum hakk og spaghetti. Eftir kvöldmat fórum við í snúsnú og svo að dansa, spila marimba og syngja á íslensku fyrir framan alla. Eftir það skruppum við í smástund í tivoliið sem er við hliðina á skólanum. Eftir það komum við heim og þá voru krakkar frá öllum löndunum að spila marimba og við vorum í smá stund með þeim og fórum svo að skrifa dagbók, þetta var mjög skemmtilegur dagur en núna ætlum við að fara að sofa.
Laugardagurinn 3.maí
Kara, Thelma og Krista skrifa: Hæhæ. Í dag vöknuðum við á sama tíma og venjulega og gerðum okkur sætar fyrir morgunmatinn á meðan Ásta lá mygluð á dýnunni. Fórum svo í síðasta marimba tímann okkar hjá Zed. Þar lærðum við nýja og mikið flóknari útgáfu af Manhanga. Sú útgáfa var mjög flott og ætlum við að læra hana betur heima. Svo fórum við á fund um tónleikana sem voru seinna þennan dag. Fórum svo í hádegismat og fengum ljúffengt pasta. Kl. 13 var rennsli yfir tónleika dagskrána. Síðan greiddum við okkur, fórum í búningana og biðum spennt eftir tónleikunum. Þeir byrjuðu kl.16. það kom mikið af fólki og þetta var ekkert smá flott! Lögin voru öll æðisleg, enda voru allir krakkarnir hérna alveg frábær. Við fengum svo pizzu í kvöldmatinn sem var alveg rosalega góð. Thule hefur svo sannarlega staðið fyrir sínu! (Innskot; Thule er kokkurinn sem eldaði frábæran mat í hópana). Síðan var alveg hellað diskó. Skemmtum okkur konunglega með Zimbabwe stelpunum sem voru svo sannarlega með taktana á hreinu. Síðan þurftum við að kveðja þær með tárin í augunum. Þetta voru alveg yndislegar stelpur. Þá vorum við bara nokkrar eftir að dansa af okkar rassgötin með Zed og Mike. Svo mikið fjör. Nú förum við að pakka !!! Góða nótt.
Sunnudagur 4.maí/Mánudagur 5.maí
Baldur, Árni og Svenni: Þessi dagur, eða dagar, hefur verið mjög langur og smáatriðin ekki lengur á hreinu. En við vöknuðum snemma morguns, kláruðum að pakka og borðuðum morgunmat. Flest allir voru farnir svo við redduðum matnum bara sjálf! Stuttu seinna vaknaði Emil og fylgdi okkur niður að strætóstöð. Anna kom svo þangað að kveðja okkur. Að kveðja þau var erfitt en við ákváðum að hittast bráðlega aftur í Zimbabwe. Við fórum beint úr strætó og tókum lest til Kaupmannahafnar. Við fórum beint úr lestinni á Strikið sem var rosa stuð. Þar borðuðum við almennilegt kjöt J Næst fórum við í Tívólíið. Biðraðir voru langar en algjörlega þess virði, tækin voru frábær! Svo fórum við á flugvöllinn með lest og biðum sirka klukkutíma eftir flugi. Þegar við komum heim til Íslands var stokkið beint upp í bíl og keyrt af stað heim. Við erum í bílnum núna og bíðum eftir að getað sofið í okkar rúmum. Þetta hefur verið skemmtilegur dagur: morgunmatur í Svíþjóð, hádegismatur í Danmörku og kvöldmatur í búllu á Íslandi.
Bestu þakkir fær Gestur Guðrúnarson fyrir hans framlag. Hann sá um að skipuleggja fjáröflun og var eini fararstjóri ferðarinnar. Hann ásamt konu sinni, Sigurbjörgu Harðardóttur og Ástu keyrðu krakkana suður og heim.
Hafið bestu þakkir fyrir ykkar frábæra framlag.
MYNDIR