Forvarnardagur og heimsókn forseta

Í dag, 5. október, var Forvarnardagurinn haldinn um allt land. Í honum tóku þátt nemendur í 9. bekk og er þetta fimmta árið sem Forvarnardagurinn er haldinn.
Svo skemmtilega vildi til að í ár var okkar skóli valinn til að taka á móti Forseta Íslands, Herra Ólafi Ragnari Grímssyni, en hann heimsækir 2-4 skóla á þessum degi á hverju ári. Auk Giljaskóla heimsótti hann líka Lundarskóla og báða framhaldsskólana sem taka þátt í verkefninu í fyrsta skiptið.
Forsetanum fylgdu fleiri góðir gestir; Dorrit Moussaieff forsetafrú, Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri, Gunnar Gíslason fræðslustjóri, Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ, Viðar Sigurjónsson sviðsstjóri ÍSÍ og Sigfús Ólafur Helgason formaður Íþróttafélagsins Þórs.

Ólafur Ragnar ávarpaði nemendur og sagði þeim frá hugmyndinni að baki Forvarnardeginum og þeim rannsóknum sem að baki liggja og ráða því hvaða þemu eru til umræðu. Síðan gengu gestir um og forsetahjónin heilsuðu hverjum einasta nemanda með handabandi og einhverjir létu mynda sig með þeim. Það er gaman að segja frá því að nemendur stóðu upp allri sem einn þegar gestirnir gengu í salinn og settust ekki fyrr en Forsetinn bauð þeim að setjast. Gestirnir fylgdust með vinnu nemenda og spjölluðu við þá í hópunum.  Unnið var með þrjú þemu: samveru, hvert ár skiptir máli og íþróttir og tómstundir.

Ef ykkur langar að skoða meira um Forvarnardaginn þá er þetta slóðin: http://forvarnardagur.is/ Myndir frá deginum eru hér: http://www.giljaskoli.is/is/moya/gallery/index/index/2011-2012/forvarnardagur-2011