Fréttatilkynning frá Skóladeild Akureyrarbæjar

Fréttatilkynning  frá Skóladeild Akureyrarbæjar

Nú er liðið rúmt hálft ár frá því teknir voru upp sameiginlegir matseðlar í skólum Akureyrarbæjar. Reynslan fyrsta hálfa árið er allra jafnan góð og í könnun sem gerð var meðal matráða og foreldra kom í stærstu dráttum fram almenn ánægja. Niðurstöður úr könnunum eru nýttar til að lagfæra byrjunarerfiðleika og lofar því framhaldið góðu.

Bent er á að matráðar hafa ákveðna valmöguleika um matreiðslu hráefnis hvern dag þ.e. þeir hafa úr nokkrum uppskriftum að velja. Þetta gerir að verkum að ekki er alltaf nákvæmlega sami réttur á boðstólnum í skólunum, en hins vegar er lögð rík áhersla á að grunnur fæðunnar sé sá sami. Þar af leiðandi getur t.d. verið borin á borð „snakk ýsa“ í einum skóla en „spaghetti fiskur“ í öðrum.

Skólarnir hafa einnig möguleika á að halda í hefðir og venjur s.s. að hafa saltkjöt og baunir á sprengidag og reykt kjöt fyrir jól. Einnig er verið að vinna með aðrar hefðir innan skólanna s.s. valdaga í grunnskólunum þar sem nemendur fá að velja hádegismat á nokkurra vikna fresti.

Matseðlarnir eru aðgengilegir á heimasíðum allra skólanna þar sem hægt er að nálgast uppskriftir og innihaldslýsingar hvers réttar. Stefnt er að því að fjölga valmöguleikum og endurskoða matseðlana þegar meiri reynsla kemst á vinnubrögðin.

Akureyrarbær hefur gert samning við birgja er annast sölu á kjötvörum, fiski, ávöxtum og grænmeti. Með þeim samningi er reynt að tryggja gæði og ferskleika þeirrar vöru sem boðið er upp á í hvert sinn, þar sem bærinn gerir ákveðna kröfu um gæði og ferskleika. Samið hefur verið við sérfræðinga um eftirlit með gæðum hráefnisins. Búið er að senda nokkur sýnishorn til ProMat ehf. og stóðst innihaldslýsing allt að 100%.

 

23. ágúst 2012

Skóladeild Akureyrarbæjar