Dagana 14.-17. maí stendur yfir Grunnskólamót UFA í frjálsum íþróttum sem fram fer í Boganum. Þetta mót er fyrir nemendur í 4.-7. bekk úr öllum grunnskólum Akureyrar. Keppnisgreinar eru 60 m. hlaup, langstökk, 600 m. hlaup, boðhlaup og reiptog. Hverjum skóla er úthlutað lit sem liðin geta klæðst til að einkenna sig, litur Giljaskóla er hvítur.
Í dag keppti 4.bekkur fyrir Giljaskóla og sigraði með glæsibrag. Börnin stóðu sig ólýsanlega vel, keppnisskapið var í toppi og liðsandinn frábær. Mikil stemming var hjá krökkunum og þau unnu öll saman sem ein heild. Þau komu heim í skóla sigri hrósandi með veglegan bikar og erum við mjög stolt af þeim. Hér má sjá myndir.