Giljaskóli er frábær skóli

Ég hef verið í Giljaskóla alla mína skólagöngu og finnst mér hann alveg hreint frábær skóli. Giljaskóli er með allt sem góður grunnskóli þarf að hafa. Ég ætla að segja ykkur frá minni upplifun af skólanum.

Mér finnst námið skemmtilegt og stundaskráin er fín þar sem kennslustundirnar eru dreifðar. Þá meina ég að við erum ekki oft í tvöföldum tímum í sama faginu sem að mínu mati er gott af því að mörgum finnst erfitt að einbeita sér að sama námsefninu í 80 mínútur stanslaust. Flestir kennararnir eru mjög fínir og þeir eru góðir í því að gera námið áhugavert og fjölbreytt. Mínir uppáhalds tímar eru íþróttatímarnir. Einvarður Jóhannsson er frábær í því að gera þá skemmtilega og fjölbreytta og eru þeir lang oftast fullir af lífi og fjöri. Íþrótta- og sundtímarnir eru kynjaskiptir á unglingastigi. Þegar einungis stelpur eru í íþróttatíma gerist margt aðeins öðruvísi. Til dæmis þegar við erum að spila fótbolta þá er keppnin aðeins minni. Í staðinn lærum við meira að spila á milli og um tæknilega hluti sem er líka mjög gaman að læra. Þrátt fyrir að íþróttatímarnir séu kynjaskiptir finnst mér þeir mjög skemmtilegir. Íþróttasalurinn sem við höfum hér í Giljaskóla er mjög stór og flottur. Á öðrum helmingnum erum við með rosalega flott fimleikahús þar sem Fimleikafélag Akureyrar æfir. Á hinum helmingnum er íþróttasalur sem er með t.d. fóboltamörkum, körfuboltakörfum og köðlum sem hægt er að klifra í. Svo eru auðvitað fjölmargir aukahlutir eins og fótboltar, körfuboltar, handboltar og ýmislegt dót sem hægt er að nota í íþróttatímunum til að gera þá skemmtilegri. Sundtímarnir finnst mér fínir og mér finnst mjög hentugt að hafa þá beint á eftir íþróttatímunum. Eftir íþróttir, sund og langan skóladag er maður nú oft svangur og erum við svo heppin hér í Giljaskóla að hún Dusanka Kotaras eldar frábæran og fjölbreyttan hádegismat fyrir okkur.

Giljaskóli er með allt sem góður grunnskóli þarf að hafa. Mér finnst gaman í skólanum og ég hlakka til að halda áfram að læra eithvað nýtt og spennandi.

 

Katrín Dóra Jónsdóttir 8. RK