Mér finnst Giljaskóli mjög góður skóli. Mér finnst þægilegt að læra hérna, starfsfólkið er gott og hjálpsamt og nemendurnir eru líka hressir og skemmtilegir.
Mér finnst kostur við Giljaskóla að hér eru lokaðar kennslustofur. Ég var í skóla á Selfossi í tæp 4 ár og þar voru ekki lokaðar stofur. Þar skiptist skólinn upp í einhverskonar kennsluálmur og í hverri álmu voru held ég 6 stofur. Stofurnar eru opnar á milli en svo eru notuð skilrúm, skápar og hillur til að afmarka hverja stofu. Með þessu skipulagi heyrðust alltaf lætin úr stofunum í kring og mér fannst það pínu truflandi. Stundum voru frekar mikil læti í kringum mann og þá var frekar erfitt að einbeita sér. (Þetta var samt fyrir 6 árum þannig að ég held að þetta hafi breyst.
Eftir páska í 4.bekk flutti ég til Akureyrar og byrjaði í Giljaskóla. Ég fann eiginlega strax mun á hversu auðveldara það var að læra í lokaðri stofu.
Mér finnst oftast mun auðveldara að halda einbeitingu hér þar sem eini hávaðinn er bara inni í þínum bekk og þá er auðveldara fyrir kennarann að hafa stjórn á hávaðanum.
Stofurnar eru samt ekki eini kosturinn í Giljaskóla, meira að segja langt því frá. Giljaskóli er fullur af kostum og meðal þeirra eru t.d. mjög góð íþróttaaðstaða, frekar fjölbreyttar valgreinar á unglingastigi og svo er námið líka nokkuð vel sniðið að hverjum og einum.
Kannski eru ekki allir mjög sammála mér með það að það séu fjölbreyttar valgreinar en þegar við skoðum það aðeins betur þá eru þær frekar fjölbreyttar. Það er t.d. kostur að við fáum að fara í utanskólaval og að fá metið val. Ef við værum ekki með utanskólaval þá værum við örugglega með miklu færri valgreinar af því að væri ekki aðstaða og starfsfólk í allar þessar valgreinar sem eru utan skólans. Metið val er náttúrulega bara snilld þar sem margir eru í íþróttum og þá getur þetta tekið í burtu 80-160 mínútur af stundatöflunni hjá þeim krökkum.
Ég gæti skrifað margt, margt fleira gott um Giljaskóla en ég læt þetta duga í bili. Ég er mjög ánægð með skólann eins og hann er þó svo að það sé alltaf hægt að breyta einhverju. Ég vona að skólinn haldi áfram að vera jafn frábær og hann er.
María Björg Ingvarsdóttir, 10.JAB