Leitinni að Grenndargralinu er lokið. Eftir langa og stranga keppni sem stóð yfir í 10 vikur stóðu tvær stúlkur í 10.SA uppi sem sigurvegarar. Það voru þær Hrafnhildur og Unnur. Ásamt þeim voru tvö önnur lið sem kláruðu allar þrautirnar á fullnægjandi hátt. Annars vegar voru það Kristín og Berglind og hins vegar þær Lena og Kolbrá. Þær eru allar í 9. KJ. Þessi þrjú lið unnu sér því inn rétt til að leita að gralinu og eins og áður sagði voru það Hrafnhildur og Unnur sem náðu lokamarkmiðinu, að finna Grenndargralið.
Föstudaginn 21. nóvember fór fram stutt verðlaunaafhending þar sem sigurvegararnir voru hylltir. Fengu þær stöllur gralið afhent ásamt því að fá verðlaunapening til eignar. Skólinn mun geyma gralið næsta árið eða þar til því verður fundinn nýr staður einhversstaðar á Akureyri fyrir keppendur næsta vetrar.
Þeir sem komu að keppninni, jafnt keppendur sem skipuleggjendur, eru sammála um að vel hafi tekist til. Keppnin verður endurtekin að ári og jafnvel eru uppi hugmyndir um að fá fleiri skóla á Akureyri í samstarf.