Grenndargralið fundið

Leitinni að Grenndargralinu 2014 er lokið. Það voru þeir Natan Dagur Benediktsson og Þórður Tandri Ágústsson úr 10. SA sem fundu Gralið þetta árið. Þeir eru því sigurvegarar í Leitinni að Grenndargralinu árið 2014. Þetta er annað árið í röð sem Giljaskóli sigrar í Leitinni. Síðastliðinn vetur unnu Bergvin Leif Garðarsson og Patrik Orri Jóhannsson keppnina.

Síðasta þraut birtist á heimasíðunni kl. 15:30 og þá fór allt af stað. Sextán lið höfðu þá tryggt sér réttinn til að taka þátt í lokasprettinum og leita að Gralinu. Aldrei hafa liðin verið jafnmörg og nú í ár. Þátttakendur reyndu að finna rétt svör við lokaþrautinni og gerðu það í kapphlaupi við tímann. Fimm klukkustundum eftir að þrautin fór í loftið höfðu átta lið náð að leysa lokaþrautina, fundið út lykilorðið og fengið í hendur lokavísbendinguna sem vísaði á Gralið. Natan Dagur og Þórður Tandri náðu fyrstir allra að leysa vísbendinguna og voru mættir til að taka við Grenndargralinu fimm og hálfri klukkustund eftir að leit hófst. Sannarlega glæsilegur árangur hjá þeim félögum sem og öllum hinum duglegu krökkunum sem fóru alla leið í þessari löngu og ströngu leit. Þeir eru allir sigurvegarar og eiga heiður skilinn fyrir frábæra frammistöðu. Með dugnaði sínum og áhuga eru þeir öðrum mikil fyrirmynd. Gralið verður geymt næsta árið í Giljaskóla en þetta er í þriðja skiptið á sjö árum sem nemendur Giljaskóla vinna Leitina. Formleg afhending Gralsins fer fram mánudaginn 1. desember. Við óskum Natani og Þórði til hamingju með sigurinn.

Frétt tekin af www.grenndargral.is