Hvatning grunnskólanemenda um að fara í framhaldsnám eftir grunnskóla

Nú er ég að fara að ljúka mínu grunnskólanámi og þarf að fara að huga að því hvað ég geri næst. Ég ætla að hefja framhaldsnám en er ekki búinn að ákveða í hvaða skóla ég  fer. Mikilvægt er fyrir framtíðina að vita hvar áhugasvið manns liggja og það er gott fyrir nemendur að vita það áður en þeir ljúka grunnskólanámi. Ýmis áhugasviðspróf eru lögð fyrir nemendur í grunnskólum til að auðvelda þeim að sjá hvar áhugasvið þeirra liggja. Því miður hjálpa próf sem þessi ekki öllum, í það minnsta, ekki sumum af þeim sem eru óöruggir um hvað þeir vilja verða.

Einhverjir taka sér hlé eftir grunnskólann og fara að vinna eða fást við eitthvað annað áður en þeir hefja nám aftur eftir nokkur ár og þá í framhaldsskóla. Mér finnst það ekki mjög sniðug hugmynd. Þú getur verið búinn að missa mikið af færni þinni og kunnáttu ef langur tími líður þangað til þú ferð aftur í skóla. Svo ertu kannski búinn að missa vinina frá þér því þeir eru komnir á undan í náminu. Þegar þú byrjar aftur seinna í skóla ertu farinn að læra með bláókunnugu fólki (en þú myndir nú samt kannski eignast nýja félaga). Hvað ef þú missir svo áhugann á námi og freistast til að vera áfram utan skóla í lengri tíma? Það er freistandi að vinna áfram þegar þú ert á annað borð byrjaður á því og vera laus við skyldur skólans. Margt bendir til að það geti endað með ósköpum. Afleiðingin gæti orðið sú að þú hreinlega hættir bara alfarið í skóla sem er náttúrulega slæmt fyrir framtíðina. Þá gæti orðið erfitt að finna sér vinnu við hæfi því auðvitað þarf ákveðna menntun til að fá vinnu við hæfi. Í staðinn þarftu kannski að sækja um vinnu þar sem þig langar ekkert til að vinna og fá að auki mjög léleg  laun.

Af þessum ástæðum hvet ég alla grunnskólanemendur til að fara í framhaldsnám strax eftir grunnskóla. Það getur skipt sköpum fyrir framtíð þeirra.

 

Sævar Karl Randversson 10. KJ