Íþróttir og sund í Giljaskóla

Í Giljaskóla eru íþróttir kenndar tvisvar í viku. Mér finnst íþróttir í skólanum mjög skemmtilegar og að íþróttatímarnir mættu vera lengri, kannski 60-80 mínútur í staðinn fyrir 40 mínútur eða oftar í viku. Oft fer mikið af tímunum í að útskýra hvað við erum að fara að gera og lesa upp þannig að þegar við erum loksins byrjuð að hita upp er lítið eftir af tímanum. Við erum kannski rétt byrjuð að hitna og þá er tíminn búinn. Síðan höfum við  bara 10 mínútur til að fara í sturtu, þurrka okkur, klæða okkur og koma okkur í næsta tíma. Það mætti líka vera meira um það að þjálfarar frá mismunandi íþróttafélögum kæmu og kynntu sína íþrótt. Einvarður er samt mjög duglegur að kynna fyrir okkur nýjar íþróttagreinar og hvetja okkur til að prófa. Íþróttatímarnir á unglingastigi í Giljaskóla eru mjög fjölbreyttir en það mætti bæta við tímana einhverskonar fræðslu um hollan mat og hollan og góðan lífsstíl. Að mínu mati eru prófin í íþróttum tilgangslaus, til dæmis píp test. Maður getur verið mjög virkur í íþróttatímum en svo hræðilegur þegar kemur að prófunum. Eins og í flestum skólum er kennt sund í Giljaskóla. Sund er mikilvægt fyrir yngri krakka, til dæmis 1.-7. bekk vegna þess að þá ertu að ná tökum á sundi en flestir eru orðnir vel syndir eftir miðstig. Þegar við erum komin upp á unglingastig finnst mér þetta ekki alveg jafn mikilvægt. Ég hef heyrt að í sumum skólum eru strákarnir aðra önnina í sundi og stelpurnar hina. Mér finnst að þannig ætti það að vera í Giljaskóla. Mér finnst kannski ekki beint leiðinlegt í sundi en ekki skemmtilegt heldur. Ég veit samt að þetta er góð hreyfing fyrir líkamann en einu sinni í viku allt skólaárið er kannski ekki nauðsynlegt. Eftir sund finnst mér við hafa nógan tíma til að taka okkur til en þegar við erum komnar upp í skóla höfum við kannski sirka 3-6 mínútur til að borða og mér finnst ekki mjög þægilegt að þurfa að borða hratt og það er ekki heldur hollt. Eins og ég sagði mættu íþróttartímarnir vera lengur. Það mætti gera sundtímana aðeins fjölbreyttari og að strákar væru aðra  önnina og stelpur hina. Það er samt ekki nauðsynlegt að hætta með sund því það er góð hreyfing og svo hollt að synda.

 

Áslaug Dröfn Sveinbjörnsdóttir 8.RK