Jafnréttisdagur í Giljaskóla 1. okt.

Jafnrétti er einn af grunnþáttum menntunar í nýrri aðalnámskrá.  Grunnþættir menntunar eru sex og skulu vera leiðarljós í almennri menntun og starfsháttum allra skóla.  Allir grunnskólar á Akureyri hafa jafnframt gert sér jafnréttisáætlun sem vinna ber eftir í námi og kennslu í samræmi við markmið aðalnámskrár og  aðalatriðin eru að nemendur fræðist um jafnrétti með fjölbreyttum og skapandi vinnubrögðum.  Með vísan í þetta fékk Giljaskóli styrk frá Sprotasjóði til vinnu með jafnrétti og eitt af því sem við ætluðum að gera var að hafa jafnréttisþema. Á morgun þriðjudag ætlum við því að hafa  jafnréttisdag í skólanum hjá 1. – 7. bekk þar sem við brjótum upp hefðbundið skólastarf og vinnum þvert á árganga.  Ætlunin er síðan að endurtaka jafnréttisdaginn seinna í vetur og fær þá unglingastigið að vera með.

Dagskráin er eftirfarandi:

1. og 2.bekkur
Fyrsti og annar bekkur ætla að vinna saman með mismunandi fjölskyldugerðir.  Þau gera sér fjölskyldur, útskýra fjölskyldugerð og gera myndrænt spjald um að allir hafi sama rétt.

3. og 4.bekkur
Þriðji og fjórði bekkur vinna saman og ætla að skoða mun á karla- og kvennastörfum, skoða mun á leikföngum barna eftir kynjum og samþætta þessa vinnu við stærðfræði. Útkoman verður sett upp í súlurit.

Miðstig
Fimmti, sjötti og sjöundi bekkur ætla m.a. að skoða saman ævintýri og skipta þar um hlutverk.  Gera athugun á hvað er stelpulegt og hvað er strákalegt.  Skoða stelpublöð og strákablöð og velta fyrir sér hvað ætlast er til af hinu kyninu.  Skoða störf með gleraugum jafréttis og  vinna ýmis verkefni úr bókinni Kompás sem fjallar um jafnrétti.

Í næstu viku á miðvikudag og fimmtudag ætlum við svo að brjóta aftur upp venjulega stundaskrá og verður þema þeirra daga Heimsálfurnar.  Nánar um það seinna.