Ég hef oft verið skammaður fyrir það sem er rangt og hvað ég mætti gera betur. Mér finnst nemendum vera hrósað alltof lítið í samanburði við neikvæða gagnrýni. Mín skoðun er að við hvatningu bætist bæði líðan nemenda og námsárangur. Kennarinn hafa svo rosaleg áhrif á mann að um leið og þú færð eitt lítið hrós frá honum þá muntu standa þig betur í því fagi. Sérstaklega þeir sem hafa minni áhuga á náminu. Segjum sem svo að ég hefði ekkert unnið í tímanum og fái skráð „vinnur ekki í tímanum“ á Mentor. Það er vissulega leiðinlegt en maður má ekki gleyma að þú átt að nýta tímann þinn. En ef ég vinn á fullu allan tímann og stend mig vel afhverju er þá ekki hægt að skrá niður „Nemandi vinnur vel“. Ég held það sé ekkert erfiðara að skrá þetta frekar en eitthvað annað. Ég veit að ég myndi vinna betur því ég þarf á hvatningunni að halda til þess að halda mér við efnið. Tökum fótboltalið sem dæmi. Stuðningsmenn í stúkunni hafa svo fáránleg áhrif á frammistöðu leikmanna. Það er ekkert svo frábrugðið náminu. Þú þarft að fá hvatningu til þess að vilja gera betur og mér finnst við alls ekki fá nóg af henni. Til að ná árángri þá þarftu vilja og viljinn kemur með hvatningunni. Jákvæðni í starfi og mórall í skóla er sami hluturinn. Fólk vinnur að markmiðum sem það setur sér. Ef ég vil fá hátt í stærðfræði en fólk tekur ekkert eftir því að ég sé farinn að leggja meira á mig, farinn að biðja meira um hjálp og læra heima þá finnst mér eins og aðrir hafi ekki trú á mér. Það er engin hvatning, fólk býst ekki við neinu af mér eða heldur að mig skorti alfarið hæfileikann til að geta þetta. Ætti ég þá ekki að reyna að komast inn í þann framhaldsskóla sem ég vil fara í vegna þess að ég tel mig ekki geta það? Ætti ég kannski að sækja um vinnu og sleppa frekara námi vegna þess að ég er lélegur námsmaður? Nei, það hafa allir getu til að læra. Hún er mismikil og fólk á miserfitt með mismunandi fög en það geta allir lært ef þeir eru hvattir til þess. Ef vilji og áhugi er fyrir hendi að þá getur maður legið yfir bókinni og lært.
Hilmir Gauti Garðarsson 10. BKÓ