Jólin nálgast

Senn líður að aðventu og samkvæmt venju verður eitthvað um að hefðbundin kennsla sé brotin upp í desember í tengslum við hátíð ljóss og friðar. Reynt er að skapa notalegt andrúmsloft innan veggja skólans og búa þannig um hnútana að allir finni eitthvað við sitt hæfi. Þrátt fyrir að hafa ekki hana Ástu tónmenntakennara ætlum við að koma saman og syngja á svölunum. Fyrsti svalasöngurinn verður fimmtudaginn 4. desember.  Sungið verður aftur dagana 5., 9., 10., 16. og 18. desember.

Næstkomandi mánudagur er 1. desember og verður hann haldinn hátíðlegur með samkomu á sal þar sem við rifjum upp fróðleiksmola varðandi atburði fullveldisdagsins  og afhendum þátttakendum í Grenndargralinu viðurkenningar. Við höfum einnig skapað þá venju að mæta  í sparifötunum í skólann þennan dag.

Annar desember verður skreytingadagur hjá nemendum í 1. – 7.bekk en hjá unglingastigi verður skreytt þriðja desember.  Nemendur  dunda  þá við eitthvert jólaföndur og skreyta stofuna sína fyrir aðventuna.

Í Giljaskóla hefur skapast hefð fyrir ýmsum verkefnum sem tengjast aðventunni.  Dæmi um slík verkefni eru boðun Maríu og fæðing Jesú, englar, kvæði Jóhannesar úr Kötlum um íslensku jólasveinana, jólaköttinn, Grýlu, Leppalúða, Þegar Trölli stal jólunum og heimsóknir í kirkju svo eitthvað sé nefnt. á hefur
1. bekk verið boðið á tónleika í Hofi hjá Norðurljósum þann 12. des. Að sögn tónleikahaldara er verið að venja lítil eyru við að njóta þess að fara á tónleika.
Sjötti bekkur sýnir helgileik að venju á sal. Áætlaðar sýningar verða mánudaginn 15. desember. Sýnt verður fyrir 1. – 7. bekk.
Vinabekkjadagar eru áætlaðir á aðventunni en þá eiga vinabekkir að hittast og drekka saman kakó.
Á bókasafninu er boðið uppá sannkallaða aðventustund.  Ingunn les úr nýjum jólabókum og býður uppá piparkökur.

Litlu - jólin eru á dagskrá 19. des. Nemendur mæti í stofur kl.8.30 og eiga fyrst  notalega stund saman með kennurum sínum, síðan er farið í íþróttasalinn og gengið þar í kringum jólatréð.  Upp úr kl. 10.15 ættu nemendur að ganga út í jólafrí.  Nemendur mæta  svo aftur í skólann á  venjulegum tíma eftir jólafrí þriðjudaginn 6. janúar.

Sú ákvörðun hefur verið tekin að vera ekki með jólakort milli nemenda en við höldum í þann sið að skiptast á litlum jólagjöfum sem kosta um 500 kr.
Starfsmenn gefa andvirði sinnar jólagjafar til mæðrastyrksnefndar og hefur skólinn bætt við þá upphæð því sem kostað var áður til jólakorta sem send voru.  Ef foreldrar/nemendur vilja styðja mæðrastyrksnefnd með smáframlagi getum við komið því til skila.   Með von um að aðventan verði tími ljóss og friðar bæði hér í skólanum og hjá okkur öllum.

Gleðilega aðventu.

Starfsfólk Giljaskóla