Giljaskóli er mjög góður skóli og nóg af góðum kostum til að skrifa um. Auðvitað eru gallarnir líka nokkrir en alls ekki margir.
Ég vil byrja á að tala um Dimmuborgir sem er félagsmiðstöðin okkar í Giljaskóla. Mér finnst frábært að geta farið þangað þegar tími fellur niður og í frímínútum og svoleiðis. Það er mjög skemmtilegt að fara í borðtennis eða horfa á sjónvarpið ef tími fellur niður. Við erum líka með flottan matsal og það er þægilegt fyrir suma að geta fengið sér hafragraut á morgnana eða í frímínútum ef maður er ekki með nesti. Ég veit ekki um aðra skóla sem bjóða upp á hafragraut. Íþróttaaðstaðan okkar er ótrúlega flott og mér finnst við heppin að eiga þetta íþróttahús sem tengist skólanum. Áður en íþróttahúsið var byggt þurftum við að taka rútu í Síðuskóla og fara í leikfimi þar. Það er mun þægilegra að geta bara labbað niður stiga og út ganginn og vera bara komin. Við þurfum hins vegar að taka rútu í sund sem er í góðu lagi. Það eina sem ég vildi sjá betra varðandi skólasund er meiri tími í klefunum að græja okkur eftir sundið. Ég held við fáum 5-10 mínútur sem er ekki nægur tími vegna þess að mjög margar stelpur á þessum aldri vilja þurrka á sér hárið og mála sig. Við náum því einfaldlega ekki vegna þess að tíminn til þess að gera þetta allt saman er of stuttur. Annars er sundaðstaðan og aðstaðan í klefunum mjög góð og ekkert hægt að kvarta yfir því. Mér finnst við vera heppin í Giljaskóla. Ég get nefnt marga fleiri góða kosti sem ég tók ekki fram núna.
Ég ákvað að tala um félagsmiðstöðina, íþróttaaðstöðuna og hafragrautinn því þetta þrennt er mér efst í huga varðandi skólann. Það eina sem mér dettur í hug að mætti bæta er að fá aðeins lengri tíma eftir sund, svo sem eins og 5 mínútur ef það er hægt.
Aldís Hulda Eggertsdóttir 9. SÞ.