Læsi

Giljaskóli vinnur markvisst að þróun fjölmargra þátta sem snúa með einum eða öðrum hætti að bættu námi nemenda, betri samskiptum eða betra skipulagi skólastarfsins.Eitt þessara verkefna er innleiðing Byrjendalæsis í  1. og 2. bekk sem unnið er í samstarfi við starfsmenn Háskólans á Akureyri.

Niðurstöður úr  byrjendalæsisprófum í  1. og 2. bekk í nóvember 2009 sýna að nemendur Giljaskóla, sérstaklega 1. bekkjar, standa sig afbragðsvel í samanburði við aðra skóla.  Alls þreyttu 947 nemendur prófið í 1. bekk, 475 drengir og 472 stúlkur í öllum skólum á landinu sem vinna eftir aðferðum Byrjendalæsis. Góður árangur telst að svara yfir 60% prófsins rétt.

Góðum árangri náðu 57% allra nemendanna 947 sem eru í 1. bekk. Í Giljaskóla náðu 76% 1. bekkinga góðum árangri.

56% drengja í öllum skólunum náði góðum árangri en 70% drengja í Giljaskóla náðu góðum árangri. 57% stúlkna í öllum skólunum náðu góðum árangri en 82% stúlkna í Giljaskóla náðu þeim árangri.

Árangur 2. bekkjar Giljaskóla var mjög góður líka þótt hann hafi ekki náð hinum frábæra árangri 1. bekkinga.

Alls þreyttu 849 nemendur prófið í 2. bekk og náðu 61% þeirra góðum árangri (yfir 60% árangri). Í Giljaskóla tóku 38 nemendur prófið og náðu  68% nemenda góðum árangri.

58% drengja í öllum skólunum náði góðum árangri en 73% drengja í Giljaskóla náðu góðum árangri. 64% stúlkna í öllum skólunum náðu góðum árangri en 65% stúlkna í Giljaskóla náðu þeim árangri.

Árangur okkar nemenda hefur farið batnandi og við erum afar stolt af því. Hluta af árangrinum viljum við þakka því góða starfi sem unnið er í leikskólunum sem flestir okkar nemenda koma úr, það er Kiðagili og Tröllaborgum. Þar er unnið með stafi, lestur og læsi á marga vegu sem verður til þess að börnin standa betur við upphaf grunnskólagöngu. Hluta af árangrinum eiga síðan að sjálfsögðu öflugir kennarar Giljaskóla og áhugasamir nemendur og foreldrar.

Mikilvægi læsis og lesskilnings er mikið fyrir allt nám og því er framangreindur árangur afar mikilvægur. Unnið er að fleiri verkefnum sem snerta lestur og læsi. Í 3. - 7. bekk er til dæmis unnið að verkefni sem kallast Orð af orði. Meginmarkmið þess er að efla orðaforða, orðvitund, lestur og lesskilning. Nemendur sem tekið hafa þátt í verkefninu eru mjög virkir og áhugasamir og finnst gaman að öðlast aukna færni í að ráða merkingu ókunnuglegra orða í texta og smíða nýyrði.  Á unglingastigi hafa verið sett upp námskeið í hraðlæsi sem hafa bæði verið skemmtileg og skilað meiri leshraða og bættum lesskilningi.

Vilji okkar stendur til þess að öll framangreind verkefni og fleiri til muni verða öflug undirstaða þess góða námsárangurs sem við viljum að nemendur okkar nái í grunn- og framhaldsnámi.