Mánudaginn 5. október sl. lauk 5. viku í Leitinni að
grenndargralinu. Framundan eru fimm vikur til viðbótar og má því gera ráð fyrir að gralið komi í leitirnar í byrjun
nóvembermánaðar. Um er að ræða keppni og/eða leik milli nemenda á unglingastigi Giljaskóla og Síðuskóla þar sem
nemendur leita að grali einu sem falið er innan bæjarmarkanna. Þátttakendur fá eina þraut í viku í 10 vikur þar sem þeir eiga að
leysa ýmiskonar verkefni sem tengjast sögu heimabyggðar. Fyrir hverja rétta úrlausn fá þeir einn bókstaf. Þeir keppendur sem skila inn
réttum úrlausnum við þrautunum 10 reyna svo að raða bókstöfunum þannig að þeir myndi orð sem tengist heimabygggð. Ef þeim
tekst að mynda lykilorðið fá þeir lokavísbendingu sem leiðir þá að gralinu. Þeir sem fyrstir koma á staðinn og finna
grenndargralið teljast sigurvegarar í Leitinni að grenndargralinu árið 2009. Auk þess hljóta þeir gralið til varðveislu í eitt
ár. Leitin hefur gengið vel og óhætt er að segja að ýmislegt hafi gengið á hjá leitarmönnum. Þann 31. ágúst sl.
hófu 36 nemendur úr skólunum tveimur leik. Einhverjir heltust úr lestinni snemma leiks, aðrir eru búinir að skila inn úrlausnum við hluta
þeirra verkefna sem búið er að leggja fyrir. Um miðbik leitarinnar, mánudaginn 5. október, höfðu 17 keppendur skilað af sér réttum
úrlausnum við öllum fimm verkefnunum. Ljóst er því að framundan er hörð keppni um grenndargralið. Meðal staða sem keppendur hafa
þurft að heimsækja þetta haustið er Gamli Lundur, Akureyrarkirkja og Hamarkotsklappir. Í einu verkefninu þurftu keppendur m.a. að finna leiði í
elsta hluta kirkjugarðsins. Höfðu þeir á orði sem heimsóttu garðinn að kvöldalagi að um óskemmtilega lífsreynslu hefði
verið að ræða en dýrmæta engu að síður. Heimasíða Giljaskóla mun halda áfram að flytja fréttir af gangi mála
allt þar til gralið lítur dagsins ljós.