Möppukerfi

Þegar sett hafa verið fyrir ritunarverkefni um skólann hefur oft verið skrifað um að það vanti skápa. En lítið hefur gerst í þeim málum. Mér finnst eins og mörgum öðrum að það verði að finna ráð við allt of þungum skólatöskum. Þetta á aðallega við um unglingastigið. Þess vegna ætla ég að koma með hugmynd.

Þegar maður er kominn í 10. bekk eru töskurnar orðnar mjög þungar. Í sumum fögum er maður kannski með 4 bækur og er svo í 5 námsgreinum yfir daginn og jafnvel líka í sundi og íþróttum. Þetta fer illa með axlirnar og bakið. Þegar ég byrjaði aftur í skólanum í haust fann ég strax mun á mér. Ég fékk vöðvabólgu í axlirnar. Þetta gengur ekki. Ég veit að í Síðuskóla er haft miklu sniðugra fyrirkomulag og kannski í öðrum skólum líka. Frænka mín er í 9. bekk í Síðuskóla og þar er svokallað möppukerfi. Þá eru þau með þunnar plastmöppur fyrir hvert fag og síðan gormastílabók en þetta á auðvitað ekki við um stærðfræði. Þannig að í staðinn fyrir að vera með 7 stílabækur eða eitthvað álíka, eru nemendur með möppur sem létta töskuna verulega. Þá gerir maður verkefnin í stílabókina og færir svo blöðin í rétta möppu. Svo kaupir maður bara nýja stílabók þegar hin klárast. Svo er líka spurning hvort að þetta sé ekki líka betri nýting á bókum og sparnaður. Stundum er maður ekki að nota nema helminginn eða minna af bókunum yfir allt skólaárið. Þá er maður kannski með 5-7 stílabækur sem eru aðeins hálfkláraðar. Auðvitað nota margir bækurnar aftur næsta ár en örugglega ekki allir. Ég tel þetta því vera mjög hentuga og sniðuga lausn fyrir bæði nemendur og skólann því að með þessu móti þarf skólinn ekki að kaupa skápa.

Einhverjir spyrja sig eflaust að því hvort allir nái að halda utan um verkefnin svona. Mér persónulega finnst þetta ekkert mál og tel að þetta kenni nemendum skipulag og ábyrgð. Það má þó ekki gleyma því að bæði Steina og Hanna hafa boðið upp á að geyma bækurnar í stofunni. En í ensku og dönsku erum við með bækurnar í teygjumöppu þannig að þetta fyrirkomulag gengur kannski ekki í öðrum námsgreinum nema maður kaupi teygjumöppur fyrir öll fögin. Þetta er sniðugt þó að þetta skapi líka ákveðið vandamál. Um daginn var ég að fara í próf og var ekki látin vita af því. Þegar ég ætlaði að fara að læra fyrir prófið, eftir að hafa séð þetta á Mentor, komst ég auðvitað að því að bækurnar voru í skólanum þannig að þetta er ekki fullkomin lausn.

Mín tillaga er því sú að skólinn íhugi að taka upp þetta kerfi þar sem þetta er ódýr og einföld lausn sem mun bæta líðan nemenda.

Eva María Aradóttir 10. SKB