Arndís Þórarinsdóttir og Gunnar Helgason heimsóttu okkur á dögunum með dagskrána Skáld í skólum sem er á vegum Rithöfundasambandsins. Í dagskránni fjalla Gunnar og Arndís um eigin bækur og annarra, lesa kafla úr verkum sínum og veita innsýn í störf rithöfunda.
Arndís Þórarinsdóttir er deildarstjóri á Bókasafni Kópavogs og hefur jafnframt sinnt skáldskap, þýðingum og blaðamennsku. Hún gaf út sína fyrstu skáldsögu, Játningar mjólkurfernuskálds, árið 2011, en bókin var tilnefnd til Norrænu barnabókaverðlaunanna 2013. Síðan þá hefur Arndís skrifað fyrir Námsgagnastofnun, þar á meðal tvær stuttar skáldsögur fyrir mið- og unglingastig.
Gunnar Helgason er leikari og leikstjóri sem hefur í auknum mæli snúið sér að því að skrifa bækur fyrir börn og unglinga. Fótboltasögur Gunnars um Jón, Rósu og félaga hafa átt miklum vinsældum að fagna og nú stendur yfir undirbúningur að kvikmyndun á fyrstu bókinni, Víti í Vestmannaeyjum. Næsta bók Gunnars mun þó ekki fjalla um fótbolta og erfiðan pabba heldur um klikkaðar mömmur. Dagskráin var flutt fyrir 5. – 7. bekk og vakti mikinn áhuga og umræður. Við þökkum þeim kærlega fyrir komuna.
Fleiri rithöfundar eru væntanlegir á næstunni og kynningar á nýjum bókum á safninu okkar verða á sínum stað í desemberdagskránni.