Mér finnst Giljaskóli mjög góður skóli. Ég hef gengið í þessum skóla síðan í fyrsta bekk og er núna á mínu seinasta ári hérna. Ég tel mig sjálfa hafa lært mikið á minni grunnskólagöngu en veit um margt sem þyrfti að breyta og bæta. Þetta er í seinasta skipti sem ég get reynt af hafa áhrif á Giljaskóla og reynt að breyta því sem mér finnst þurfa að breyta.
Í Giljaskóla finnst mér skorta góð samskipti. Samskipti milli kennara og nemenda finnst mér að ættu að vera meiri en bara umræður um námið sem við erum í. Ég er ekki að segja að það sé ekki nauðsynlegt, alls ekki. Það er grunnurinn að grunnskólamenntuninni. Ég veit vel að það er kennt eitthvað á því sviði að læra annað en þetta hefðbundna. Til dæmis er ég mjög þakklát fyrir þjóðfélagsfræði sem Brynjar kennir okkur í 10.bekk. En lífsleiknin í Giljaskóla finnst mér ekki nógu góð og hana þarf vel að bæta. Við höfum aðeins einn 40 mínútna tíma í viku og mér finnst hann alls ekki nógu vel nýttur. Seinustu þrjú árin sem ég man eftir úr lífsleikni, hefur kannski einstaka sinnum verið eitthvað sem við virkilega höfum lært af og skiptir máli. Mér persónulega finnst lífsleiknin skipta miklu máli á unglingastigi.
Ég veit að í mörgum tilvikum vilja krakkar hafa fleiri kynjaskipta tíma. Ég veit að næstum öllum unglingum í bæði Giljaskóla og fleiri skólum finnst vanta meiri kynfræðslu. Mér sjálfri finnst vanta meiri kynfræðslu því það er eitthvað sem við þurfum að læra þegar við erum komin á þennan aldur. Það er hægt að nota lífsleiknitímana betur, t.d. í kynfræðslu og annað slíkt. Lífsleikni er gerð til að börn og ungmenni læri á lífið og læri leikinn að lifa lífinu. Er þetta ekki hluti af lífinu?
Eitt aðalatriði í grunnskóla er að við lærum góð samskipti við annað fólk í kringum okkur. Við höfum lært samskipti og annað slíkt frá því í fyrsta bekk en mér finnst það fara minnkandi eftir því sem við eldumst. Kennarar þurfa meira að leggja áherslu á það að við ræðum saman um málefni sem okkur unglingunum finnst áhugaverð og forvarnir um eitthvað sem við höfum áhuga á. Fer kennsla um samskipti minnkandi í Giljaskóla? Til dæmis eru krakkar í yngri bekkjum orðnir rosalega orðljótir og bera litla virðingu fyrir okkur eldri krökkunum.
Góð samskipti eru mikilvæg fyrir okkur og aðra í kringum okkur og þau finnst mér þurfa að bæta í Giljaskóla og eflaust í fleiri skólum. Aðalatriðið finnst mér lífsleiknin, og hvað hana varðar. Ef kennsla um samskipti er farin að minnka í skólanum er um að gera að bæta það aftur. Eins og ég sagði er Giljaskóli góður skóli en margt finnst mér þurfa að breyta. Ég vona að þetta veki fólk til umhugsunar og að svona hlutir verði bættir.
Tinna Benediktsdóttir 10.JAB