Sjálfsmat

Margvíslegar kröfur eru gerðar til grunnskóla og eru sumar þeirra ekki mjög sýnilegar foreldrum. Ein af þessum kröfum, sem mörgum skólum hefur reyndar gengið fremur brösuglega að mæta, felst í mjög víðtæku og umfangsmiklu sjálfsmati.

Í sjálfsmati felst söfnun gagna af ýmsu tagi, túlkun þeirra og umræður um þau. Er sjálfsmatið hugsað sem grundvöllur að umbótaáætlunum og þróunarstarfi af ýmsu tagi. Sumir foreldrar hafa kannski gluggað í ársskýrsluna sem finna má á heimasíðu skólans en hún er hluti af sjálfsmati okkar. Þá eru kannanir sem lagðar eru fyrir foreldra, starfsmenn og nemendur einnig hluti af sjálfsmatinu.

Menntamálaráðuneytið gerir úttektir á sjálfsmatsaðferðum skóla og í haust var gerð úttekt á 29 grunnskólum á landinu, þar af fjórum á Akureyri. Giljaskóli var sá eini á Akureyri sem fékk fullnægjandi einkunn. Í umsögn Menntamálaráðuneytisins segir meðal annars:

"Í fimm af þeim 29 grunnskólum sem voru í úttekt haustið 2009, eru bæði viðmið menntamálaráðuneytisins um sjálfsmatsaðferðir og um framkvæmd sjálfsmats uppfyllt að öllu leyti. Giljaskóli er einn þessara skóla og fagnar ráðuneytið góðum árangri og vel unnum störfum við sjálfsmat í skólanum. Ráðuneytið væntir þess að skólinn vinni áfram af sama metnaði við sjálfsmat."

Við erum stolt af þessu og vonumst til að gera sjálfsmatið enn betra á næstu árum, t.d. með því að tengja það betur skólanámskrá og kynna það foreldrum og nemendum í ríkari mæli.