Giljaskóli er frábær skóli og er ég mjög glöð að segja að ég hafi verið nemandi í þessum skóla í 10 ár. Það er margt gott en það er líka margt sem betur má fara við skólann eins og gengur og gerist. Ég ætla hér á eftir að einblína á góðu hlutina sem ég hef upplifað í Giljaskóla.
Á mínum 10 árum hér hef ég gert margt skemmtilegt annað en að hanga yfir námsbókum og ætla ég að telja upp og segja örlítið frá þessum hlutum í leiðinni.
Þemadagar: Flestir skólar eru með þemadaga en þeir eru oftast frá 1. og upp í 10. bekk. Hjá okkur ná þemadagar bara upp í 7. bekk. Mér fannst alltaf mjög gaman á þemadögum. Maður slapp við námsbækurnar í nokkra daga og fékk að gera fjölbreytta hluti með mismunandi krökkum.
Stuttmyndadagar: Ég veit ekki um neinn skóla sem er með stuttmyndadaga fyrir utan Giljaskóla en það finnst mér vera eitt af því skemmtilegasta við skólann. Þeir koma í staðinn fyrir þemadaga. Við skrifum handrit sem við skilum sem íslenskuverkefni og eru svo valin nokkur handrit sem við gerum stuttmyndir úr. Á þessum dögum blandast allt unglingastigið saman og flestir hafa gaman af því að taka upp myndir og leika í þeim.
Uppbrotsdagar: Uppbrotsdagar eru skemmtilegir, þar brjótum við upp venjulegan skóladag og gerum eitthvað skemmtilegt saman. Til dæmis höfum við labbað upp á fjall, farið í hringekju (þar blandast allur skólinn saman í nokkra hópa og fara á mismunandi stöðvar), við höfum haft dag þar sem allir á unglingastigi máttu hafa frjálsa mætingu og þeir sem mættu máttu ráða hvað þeir lærðu þennan dag og í hvað stofu. Það var mjög skemmtilegur dagur sem t.d. nýttist mér vel. Við höfum gert margt annað þessa daga sem er of langt að telja upp hér.
Árshátíðin: Það er alltaf gaman á árshátíðinni í Giljaskóla. Þegar maður var í 1. til 7. bekk þá fékk maður að æfa atriði nokkrum vikum fyrir sýningu og það var alltaf svo spennandi og gaman. Þegar við komum á unglingastig þá hættum við að sýna atriði og sýnum í stað þess stuttmyndirnar sem við gerðum á stuttmyndadögum. Eftir að allar myndirnar eru sýndar er svo kosning um bestu myndina, aðalleikara, klippingu, búninga og margt fleira. Daginn sem árshátíðarballið er þá er 10. bekkur í mat og eftir matinn er svokallaður Giljari og eru þar afhent verðlaun fyrir kosninguna af stuttmyndunum og eftir Giljarann hefst síðan árshátíðarballið.
Þarna taldi ég upp nokkra frábæra hluti við Giljaskóla en þeir eru fleiri. Ég vil samt sem áður, þar sem þetta er síðasta ritunarverkefnið mitt í Giljaskóla, biðja skólastjórnendur að gefa sér tíma í að lesa greinarnar okkar um skólann. Þar sjá þeir skoðanir okkar og sjónarmið um það sem er gott og einnig það sem betur má fara við skólann okkar. Það væri vel hægt að byrja smátt, halda síðan áfram skref fyrir skref, því margt smátt gerir eitt stórt ekki satt?
Giljaskóli er frábær skóli með marga kosti en hefur sína galla líka. Það eru fullt af skemmtilegum dögum í skólanum svo sem þemadagar, stuttmyndadagar, uppbrotsdagar og árshátíðarvikan. Greinarnar sem við höfum skrifað eru stútfullar af flottum hugmyndum sem vert er að skoða og mættu skólastjórnendur hafa þær sér til hliðsjónar þegar kemur að breytingum í Giljaskóla. Þetta eru jú hugmyndir frá okkur nemendum skólans.
Selma Hörn Vatnsdal 10.SKB