Það þarf að kynna fyrir krökkum hvað einhverfa er

Einhverfa er eitthvað sem allir þyrftu að vita hvað er. Það ætti að halda kynningar og fyrirlestra fyrir krakka t.d. í Giljaskóla og kynna fyrir þeim hvað einhverfa er. Einhverfa er teygjanlegur sjúkdómur. Þú getur verið greindur á einhverfurófi  en svo getur þú líka verið svo einhverfur að þú ert alveg rosalega lokaður og þolir litlar snertingar. Einhverfa er taugafræðileg röskun á eðlilegum þroska sem kemur fram í skertri getu til félagslegra samskipta og tjáningar. Mín reynsla af einhverfu hefur verið skrautleg þar sem ég á lítinn bróður sem er greindur á einhverfurófi með ADHD en það er ein gerð af einhverfu. Núna ætla ég að segja ykkur mína reynslu af einhverfu.

Þegar litli bróðir minn fæddist var hann heima í 6 daga og þurfti síðan að fara upp á sjúkrahús og vera þar í viku. Það var alveg rosalega erfið vika og ég vildi ekki trúa því að hann þyrfti að vera þarna. Eftir þessi veikindi kom eitt og annað í ljós. Hann varð einu og hálfu ári eftir í þroska og það var mjög erfitt að horfa á jafnaldra hans vera talandi og hann var ekki einu sinni byrjaður að tala. Átta mánaða gamall þurfti hann að fara í sjúkraþjálfun því hann var ekki byrjaður að sitja sjálfur. Hann þurfti að vera í sjúkraþjálfun í langan tíma. Um þriggja ára aldur kom greining um að hann væri einhverfur og með ADHD. Það var svo erfitt að meðtaka þær upplýsingar að bróðir minn væri ekki eins og flest önnur börn. Núna er hann orðinn 5 ára gamall og hann er alveg yndislegur. Hann er oft mjög erfiður við mig og mömmu líka. Ástæðan fyrir því er sú að hann er með ADHD og á einhverfurófi. Þegar barn er með einhverfu þarf að passa vel upp á það og reyna að tala mikið við það og reyna að ná augnsambandi. Eins og litli bróðir minn er þá tekur hann augnsambandi en ekki lengi í einu. Hann situr í mesta lagi í hálfa mínútu kyrr hjá mér því hann getur ekki setið lengur kyrr og það er vegna ADHD sem hann er með. Þar sem við förum í búðir eins og flest annað fólk þá er stundum alveg rosalega erfitt að gera það um mánaðamót eða þegar kemur að hátíðum t.d. um jólin og um páskana. Hann þolir lítið áreiti og kliður og hann annað hvort verður hann reiður eða hann spennist upp og það er ómögulegt að hafa stjórn á honum. Sem betur fer á ég mjög góðar vinkonur sem taka honum eins og hann er og ég vil þakka þeim fyrir það. Mér finnst mjög mikilvægt að börn, unglingar og fullorðnir viti hvað einhverfa er því það er svo gott fyrir fólk að taka fólki eins og það er. Þegar nýtt barn byrjar í skóla, og það er kannski einhverft eða með sjúkdóm, finnst mér mikilvægt að það sé kynnt fyrir krökkunum að það sé barn í skólanum sem er ekki eins og við flest öll. Ég væri meira en til í að við fengjum að fara í heimsókn í sérdeildina í Giljaskóla og kynnast krökkunum og starfsfólkinu þar því mér finnst að við eigum að umgangast þau miklu meira.

Líkjum þessu við að hver og ein manneskja sé með fastan poka á bakinu og geti ekki tekið hann af. Þeir sem eru með þungan poka kljást við erfiðleika eða sjúkdóma en þeir sem eru með léttan poka lifa mjög góðu lífi.

 

Einhverfa er eitthvað sem allir skólar á Akureyri og á Íslandi ættu að kynna fyrir krökkum og reyndar allir sjúkdómar sem krakkar þurfa að kljást við. Það er meira en að segja það og ég hef kynnst því. Þetta er það sem ég vil koma á framfæri í mínum skóla.

 

Valgerður Sigurbergsdóttir   10.JAB