Viðurkenning skólanefndar fyrir framúrskarandi skólastarf

Samkvæmt skólastefnu Akureyrarbæjar skal árlega, veita þeim einstaklingum eða stofnunum sem skarað hafa fram úr í skólastarfi viðurkenningar. Markmiðið er að vekja sérstaka athygli á því sem vel er gert og hvetja þá sem fyrir valinu verða til þess að halda áfram því góða starfi sem þeir eru að vinna og jafnvel gera enn betur. Viðurkenning er einnig staðfesting á að viðkomandi skóli/kennari/nemandi er fyrirmynd annarra á því sviði sem viðurkenning nær til.Skólanefnd mun frá árinu 2010 veita einstaklinum og/eða stofnunum sem skarað hafa fram úr í eftirtöldum tveimur flokkum viðurkenningar, við hátíðlega athöfn. Skólanefnd ákveður fjölda viðurkenninga ár hvert að fenginni tillögu valnefndar.

Skólar/Kennarahópar/Kennari

Foreldrar, nemendur, kennarar, skólar og bæjarstofnanir geta tilnefnt verkefni í skóla til viðurkenningar. Tilnefna má nýbreytniverkefni um hvaðeina í skólastarfi sem unnið hefur verið að á yfirstandandi skólaári, nemendavinnu, vinnu hópa eða einstaklinga, upplýsingamiðlun (s.s. heimasíður og fréttabréf), stefnumótun og skipulag, starf eins kennara eða samvinnu þeirra, verkefni í almennri kennslu, sérgreinum eða sérkennslu, framlag annars starfsfólks skólans, forvarnarstarf, félagsstarf eða foreldrasamstarf.

Nemendur.

Skólar setja sér reglur um það hvaða nemendur þeir tilnefna til viðurkenninga og senda til valnefndar. Tilnefningar eru óháðar aldri. Viðurkenningu má veita fyrirgóðan námsárangur, góðar framfarir í námi, virkni í félagsstarfi, að vera jákvæð fyrirmynd, sýna frumkvæði eða leiðtogahæfileika, frábæra frammistöðu í íþróttum eða listum, listsköpun eða tjáningu í skólastarfi, félagslega færni, samskiptahæfni og framlag til að bæta eða auðga bekkjaranda/skólaanda, nýsköpun og/eða hönnun.

Þessi samþykkt nær til allra leik-, grunn- og tónlistarskóla sem Akureyrarbær rekur eða styrkir.

Tilnefningar skulu hafa borist valnefnd fyrir 9. maí 2010 . Viðurkenningar verði afhentar í lok skólaársins og verður tímasetning auglýst í maí ár hvert.

Valnefnd verður skipuð einum fulltrúa úr skólanefnd, einu foreldri sem tilnefnt er af Samtaka og foreldrum leikskólabarna og einum fulltrúa frá Skólaþróunarsviði HA. Fræðslustjóri er starfsmaður valnefndar.