Bókasafn Giljaskóla er einn af þeim stöðum í skólanum sem bókaormar elska. Það er staðsett á annari hæð skólans við hliðina á tölvustofunni og skrifstofu ritara. Bókasafnið er í fallegu 120 fermetra rými. Bókasafnsvörðurinn er duglegur við að glæða bókasafnið lífi t.d. þegar nálgast fer jólin.
Á bókasafninu eru um níu þúsund bækur, skáld- og fræðirit sem nemendur geta fengið að láni. Auk þess eru hljóðbækur, spil, myndbönd, tímarit, hljómdiskar og mynddiskar á safninu.
Safnið er opið frá klukkan 8 til 14:30. Útlánstími er tvær vikur nema sérstaklega sé samið um annað við starfsmann bókasafnsins.
Góð aðstaða er á safninu. Þar eru tvær fartölvur, fjórar borðtölvur og ró og friður. Alls er vinnuaðstaða fyrir 12-15 nemendur. Þar geta þeir leitað heimilda, lært, lesið og spilað.
Skólasafnskennari Giljaskóla er Ingunn V. Sigmarsdóttir. Ingunn er mörgum kostum búin en hún er skemmtileg, hjálpsöm, hugmyndarík og vingjarnleg.
Ingunn sér um safnkennslu fyrir alla nemendur skólans. Hún kennir á Dewey-kerfið og hún kennir þeim á bókasöfn. Ég man þegar ég var yngri að þá kenndi hún mér fjöldan allan af ljóðum og gömlum þjóðsögum. Eitt af því sem ég man hvað mest eftir er sagan Kelling vill hafa nokkuð fyrir snúð sinn. Hún fjallaði um konu og kall sem bjuggu til stiga til að reyna að komast til himna. Þau tóku með sér hafragraut. Á leiðinni upp þá duttu þau niður og sagt er að holufyllingar í steinum séu heilaslettur og hafragrautur. Í kjölfarið teiknuðum við myndir sem Ingunn hengdi svo upp á veggi bókasafnsins.
Á aðventunni fer fram lestur úr nýjum barna- og unglingabókum fyrir alla nemendur skólans. Þannig geta nemendur valið hvaða bók þeir vilja í jólagjöf. Ég hef alltaf valið bækur á jólagjafalistann minn eftir þessa heimsókn.
Ingunn leggur líka mikið upp úr stemmingjunni á safninu og t.d. gefur hún okkar piparkökur þegar þessar kynningar fara fram.
Bókasafnið er örugglega uppáhaldsstaðurinn minn í öllum skólanum vegna þess að Ingunn er frábær, maður er umkringdur bókum og þar er vinnufriður.
Ég vona að í framtíðinni haldi Ingunn áfram að vera svona skemmtileg og vonandi heldur bókasafnið áfram að stækka og verði ómissandi hluti af skólanum.
Róslín Erla Tómasdóttir 9. SÞ