Dagur íslenskrar tungu 16. nóvember 2011
Fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar.
Að tillögu menntamálaráðherra ákvað ríkisstjórn Íslands, haustið 1995, að 16. nóvember ár hvert, sem er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, yrði dagur íslenskrar tungu. Í framhaldi af því hefur menntamálaráðuneytið árlega beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við það. Með því móti beinist athygli þjóðarinnar að stöðu tungunnar, gildi hennar fyrir þjóðarvitund og alla menningu.
Dagur íslenskrar tungu var fyrst haldinn hátíðlegur árið 1996. Fjölmargir aðilar lögðu hönd á plóg og efndu til viðburða af þessu tilefni. Má þar nefna fjölmiðla, skóla, stofnanir og félög. Menntamálaráðuneytið hélt hátíðarsamkomu og veitti þar í fyrsta sinn Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og sérstakar viðurkenningar fyrir störf í þágu íslenskunnar. Dagur íslenskrar tungu hefur síðan verið haldinn hátíðlegur með svipuðu sniði og sífellt fleiri aðilar taka virkan þátt í honum með ýmsu móti. Íslendingar hafa verið hvattir til að draga íslenska fánann að húni á degi íslenskrar tungu.
Dagur íslenskrar tungu 16. nóvember er haldinn hátíðlegur í Giljaskóla í dag. Að venju var valið skáld dagsins. Að þessu sinni voru það systurnar Iðunn og Kristín Steinsdóttir sem urðu fyrir valinu. Ástæðan er m.a. sú hve fjölbreytt verk þær hafa gefið út og hve auðvelt er að vinna með þau í öllum aldurshópum. Munu nemendur vinna með verk þeirra á næstunni.
Undanfarin ár höfum við verið með samkomu á sal skólans í tilefni dagsins þar sem Stóru upplestrarkeppninni er formlega ýtt úr vör og ennfremur hafa nemendur flutt ýmis atriði varðandi skáld dagsins. Í fyrra bar Eva María Aradóttir í sjöunda bekk sigur úr býtum í keppninni en hún ásamt Baldri Bergsveinssyni tók þátt í úrslitum keppninnar í Menntaskólanum. Þau stóðu sig mjög vel þó ekki hafi þau komist í úrslit.
Í ár verður sú breyting á að þar sem sjöundi bekkur er í Skólabúðunum að Reykjum verður Stóra upplestrarkeppnin sett þegar þau koma heim.
Samvinna og kynningar verða í ár á milli árganga um skáldin okkar og munu þeir koma saman til þeirrar vinnu í stofum sínum.
Fyrsti og annar bekkur ætla að vinna saman með bækurnar um Snuðru og Tuðru eftir Iðunni Steinsdóttur.
Þriðji og fjórði bekkur vinna saman. Þriðji bekkur E.E. mun kynna bókina Gegnum þyrnigerðið eftir Iðunni Steinsdóttur. Þau munu kynna höfundinn, segja frá hvernig bókin byggist upp, lýsa aðalpersónum og sýna teikningar sem urðu til við lestur bókarinnar. Þriðji bekkur T.B. verður með kynningu á Drekasögu eftir Iðunni Steinsdóttur. Nemendur skiptast á að lesa söguna og hlustað verður á lög sem tengjast sögunni inn á milli lestra. Fjórðu bekkir ætla að kynna bækurnar um Snuðru og Tuðru eftir Iðunni Steinsdóttur. Alls verða sex bækur kynntar af jafnmörgum hópum. Í kynningunni kemur fram nafn bókar, höfundur, endursögn, boðskapur og að lokum lesa þau ljóð sem hver hópur samdi um Snuðru og Tuðru.
Fimmti og sjötti bekkur hafa verið að vinna saman verkefni um ljóð Jónasar Hallgrímssonar en sjötti bekkur hefur jafnframt verið að lesa bókina Franskbrauð með sultu eftir Kristínu Steinsdóttur og vinna sögugreiningu um hana.
Nemendur í 8.- 10. bekkur koma að venju saman í Brekkuskóla, Síðuskóla og Lundarskóla. Að þessu sinni kynnir hver skóli nútímaskáld. Giljaskóli ætlar að kynna Ingunni Sigmarsdóttur sem einnig starfar sem skólasafnkennari í Giljaskóla. Hún hefur nýverið gefið út ljóðabók sem nefnist Lausagrjót úr þagnarmúrnum.