Í ljósi nýjustu tilmæla Almannavarna þarf að endurskoða skipulag skólastarfs frá og með þriðjudeginum 24. mars. Sóttvarnir eru forgangsmál hjá öllum í samfélaginu og eiga þær við allsstaðar og alltaf. Hólfun skóla verður enn markvissari en verið hefur og tekið verður fyrir allan ónauðsynlegan samgang á milli þeirra hvort sem um nemendur eða starfsfólk er að ræða.
Nú er okkur gert að fækka í hópum eldri nemenda og skólar munu því vinna samkvæmt því sem hér segir:
- 1. - 4. bekkur verður áfram fram til hádegis í skólanum skv. sama skipulagi og verið hefur
- 5. - 7. bekk verður skipt í tvo hópa og mæta nemendur annan hvern dag samkvæmt nánara skipulagi sem ykkur berst frá hverjum skóla.
- 8. - 10. bekkur verður alfarið í heima- og sjálfsnámi með aðstoð kennara
Eindregin tilmæli eru um að þeir foreldrar sem eru heima yfir daginn og geta haft börn sín heima geri það. Það styrkir enn frekar sóttvarnir og auðveldar starfsfólki að halda uppi reglubundnu starfi.
Bestu þakkir fyrir ríkan skilning á stöðunni og það er gott að finna hvernig samtakamátturinn fleytir okkur áfram við aðstæður sem þessar.
Karl Frímannsson, sviðsstjóri fræðslusviðs Akureyrarbæjar