Þegar ég fór að velta tölvuvandamálum unglinga fyrir mér vöknuðu upp spurningar: Eru unglingar of mikið í tölvu nú til dags? Hefur tölvunotkun áhrif á samskipti við fjölskyldu og vini? Velja unglingar tölvu fram yfir vini og tómstundir? Er hollt fyrir unglinga að vera of mikið í tölvu? Hver er munurinn á unglingum nú þegar tölvur eru nánast á hverju heimili og á unglingum hér áður fyrr þegar tölvur voru ekki til?
Tölvur hafa ekki alltaf verið hluti af mannkyninu en ekki er langt síðan tölvur fóru að vera til á næstum hverju heimili. Foreldrar okkar ólust til dæmis ekki allir upp við tölvur á heimilum sínum. Tölvur eru hins vegar taldar ómissandi nú þegar mest öllu er stýrt í gegnum tölvur í okkar daglega lífi. Tölvur geta sparað okkur mikinn tíma. Það er til dæmis fljótlegra að afla sér upplýsinga á netinu heldur en að fletta þeim upp í bókum þó svo að það séu ekki endilega betri upplýsingar. Þær gera okkur kleift að hafa meiri samskipti við vini og ættingja sem búa út um allan heim. Við getum borgað reikninga, keypt flug og margt annað með tilvist tölvunnar og internetsins. Það eru ekki aðeins unglingar sem eyða heilu dögunum fyrir framan tölvuskjáinn heldur einnig foreldrar okkar og jafnvel ömmur okkar og afar. Auk þess hefur tölvunotkun meðal ungra barna töluvert aukist að mínu mati enda eru komnar spjaldtölvur í suma leikskóla sem notaðar eru til þess að örva þroska barna. Það má því segja að tölvunotkun sé alls ráðandi hjá öllum kynslóðum í dag.
Tölvuvandamál er hins vegar orðið algengt vandamál í heiminum í dag vegna þess að þó svo að þær gegni mikilvægu hlutverki í lífi okkar þá eru margir sem misnota þær líkt og margt annað. Ég fór að vafra um veraldarvefinn til þess að skoða hvað væri sagt um tölvuvandamál og þá rakst ég á nokkrar greinar sem fjölluðu um tölvuvandamál. Ég komst að því að tölvuvandamál hrjáir ekki aðeins unglingsstráka heldur einnig stelpur og jafnvel fullorðna einstaklinga. Tölvuvandamál má skilgreina sem óhóflega notkun á tölvu sem hefur áhrif á daglegt líf einstaklingsins. Vandamálið getur jafnvel verið svo slæmt að sumir finna fyrir fráhvarfseinkennum. Margir eiga það til að einangrast vegna of mikillar tölvunotkunar og sækja illa skóla og vinnu. Of mikil tölvunotkun getur jafnvel leitt til slæms námsárangurs.
Eldra fólki blöskrar hversu miklum tíma við unglingarnir eyðum fyrir framan tölvuskjáinn en að mínu mati er það vegna þess að tölvur tilheyrðu ekki æsku þeirra líkt og á við um unglinga í dag. Þess vegna tel ég að minna verði litið á tölvunotkun sem vandamál í framtíðinni þegar allar kynslóðir verða farnar að alast upp við tölvur. Ég tek þó undir með mörgum að unglingar í dag eyða of miklum tíma fyrir framan tölvu og of litlum tíma með vinum sínum og fjölskyldum. Þó svo að tölvur séu mjög gagnlegar þá tel ég það einnig vera mikilvægt að hafa félagsleg samskipti við aðra án þess að það sé í gegnum internetið. Það væri mjög slæmt ef ung börn venjast því að eyða mest öllum tíma sínum í tölvum og hafa mest öll samskipti í gegnum internetið. Það er mjög slæmt fyrir framtíð þeirra vegna þess að þau missa af öllum félagslegum samskiptum og félagsleg færni þeirra verður ekki eins góð. Eftir að hafa velt þessu fyrir mér sé ég hvers vegna það er mikilvægt að foreldrar hjálpi börnunum sínum að hafa stjórn á tölvunotkuninni vegna þess að börn hafa oft ekki þá sjálfsstjórn sem þarf til að stjórna henni sjálf.
Tölvunotkun fylgja því bæði kostir og gallar. Tölvur geta t.a.m. sparað okkur mikinn tíma og auðveldað okkur samskipti við vini og ættingja sem búa í öðrum löndum. Unglingum stafar þó meiri hætta af einangrun frá vinum og fjölskyldu og að námsárangur þeirra getur versnað ef tölvunotkunin er orðin það mikil að hún er orðin vandamál. Eitt er þó ljóst að allt er gott í hófi og á það við um tölvunotkun eins og svo margt annað.
Vignir Jóhannsson
Greinin er unnin upp úr málstofuverkefni sem nemendurr 10. bekkjar fluttu munnlega á heimatilbúnu málþingi í skólanum.