Á vordögum 2018 hlaut Giljaskóli styrk á vegum Erasmus Plus til tveggja ára vegna þátttöku í verkefni á þeirra vegum. Umsóknin var unnin af fjórum kennurum skólans, þeim Önnu Maríu Þórhallsdóttur, Astrid Hafsteinsdóttur, Söndru Rebekku og Sigrúnu Magnúsdóttur. Verkefnið sem sótt var um sneri að þátttöku á námskeiði í þvermenningarlegri verkefnastjórnun sem haldið var á Krít dagana 7. - 12. apríl 2019. Markmið námskeiðsins var að þjálfa verkefnastjóra yfir verkefnum á vegum Erasmus Plus og var Giljaskóli eini skólinn á Íslandi sem sótti um námskeiðið að þessu sinni.
Tildrög umsóknarinnar voru þau að Sandra Rebekka sótti um forskráningu á námskeiðið. Eftir að hafa fengið þá umsókn samþykkta bættust Anna María, Astrid og Sigrún við sem þátttakendur að verkefninu. Saman mótuðu þær áhersluatriði að framtíðarverkefni sem snýr að sköpun, tækni og samvinnu þvert á menningarheima. Allir umsækjendur höfðu áhuga á að víkka sjóndeildarhring sinn með það að markmiði að finna nýja og spennandi fleti á sínum kennsluháttum, öðlast möguleika á tengslum við aðra skóla í Evrópu og fá innsýn í þeirra starf. Umsóknin hlaut afbragðseinkunn og framundan var spennandi námskeið og hugsanleg samstarfsverkefni sem kæmu í kjölfarið á því.
Hópurinn lagði af stað í ferð sína frá Akureyri þann 5. apríl síðastliðinn. Framundan var langt ferðalag með stuttu stoppi í Keflavík og París áður en hópurinn kom til Heraklion á Krít um miðjan dag þann 7. apríl. Strax þá um kvöldið hittust þátttakendur námskeiðsins á óformlegum kynningarfundi en eiginleg dagskrá byrjaði strax morguninn eftir. Á námskeiðinu voru starfsmenn skóla frá 8 löndum og öllum skólastigum fyrir utan háskóla. Um var að ræða 5 daga námskeið þar sem þátttakendur sátu fyrirlestra um umsóknarferli og mismunandi umgjörð verkefna á vegum Erasmus Plus. Einnig voru kynntar ýmsar aðferðir sem nota má í þvermenningarlegum aðstæðum, hvort heldur sem er með nemendum eða öðrum kennurum. Dagskrá námskeiðsins var þétt en afar áhugaverð. Gaman var að kynnast kennurum frá öðrum löndum og einnig að fá tækifæri til að kynna Giljaskóla og íslenskt skólakerfi. Meðlimir hópsins voru því margs vísari þegar þeir héldu heim eftir þessa 5 daga. Á heimleiðinni var millilent í London, gist þar í eina nótt og komu ferðalangarnir þreyttir en ánægðir heim til Akureyrar að kvöldi 14. Apríl. Við tekur nú kynning og miðlun til samkennara annarra áhugasamra um möguleika og tilgang alþjóðlegra verkefna í skólastarfi.