Eva Laufey Eggertsdóttir í fyrsta sæti í Stóru upplestrarkeppninni á Akureyri

Mánudaginn 16. mars var Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk haldin í MA. Þar voru saman komnir 13 keppendur úr 7. bekkjum í grunnskólum bæjarins. Áhorfendur voru úr hópi kennara, aðstandenda og annarra velunnara.

Keppnin gekk í alla staði vel, ýmis ávörp voru flutt, vönduð tónlistaratriði frá Tónlistarskólanum og svo sjálfur upplesturinn, bundið mál og óbundið samkvæmt reglum. Tveir keppendur komu úr Giljaskóla, þau Eiður Ingi Sigurgeirsson og Eva Laufey Eggertsdóttir, bæði úr 7. RK. Þau stóðu sig með mikilli prýði og hlaut Eva Laufey fyrsta sætið í keppninni. Í öðru sæti varð Herdís Elín Þorvaldsdóttir úr Síðuskóla og Aldís Greta Bergdal úr Hrísey varð í þriðja sæti.

Við óskum Evu Laufeyju innilega til hamingju með sigurinn og þökkum nemendum og kennurum fyrir vel heppnað starf við undirbúning keppninnar.

Myndir sem Ólafur Thoroddsen tók.