Félagsmiðstöð Giljaskóla – Hvað má laga?

Félagsmiðstöðvar eru mikilvægur þáttur í lífi barna og unglinga. Þær gegna því mikilvæga hlutverki að sinna tómstunda- og félagsmálum utan hefðbundis skólatíma. Félagsmiðstöðvum er einnig ætlað að mæta þörfum unglinga fyrir fjölbreytt frítímastarf og samveru með jafnöldrum í öruggu umhverfi. Félagsmiðstöð er staður þar sem unglingar í 8.-10. bekk hittast og kynnast og gera eitthvað saman. Félagsmiðstöðvar vinna að forvörnum og alltaf samkvæmt lögum um útivistartíma. Góðum reglum er fylgt eftir t.d. að fá leyfi frá forráðamönnum þegar um gistikvöld er að ræða, söngvakeppnir og fleira sem fer fram utan löggilts útivistartíma. Allir viðburðir á vegum félagsmiðstöðva eru áfengis- og tóbakslausir. Félagsmiðstöðvar má finna í nánast öllum sveitafélögum og eiga auk þess að standa öllum ungmennum til boða sem áhuga hafa á. Í félagsmistöð eru oft klúbbar, t.d. stelpu- , stráka- og útivistarklúbbar og allskonar aðrir klúbbar svo hver og einn ætti að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Venja er að hafa einn starfslista í hverri félagsmiðstöð en hann hefur að geyma nöfn starfsmanna miðstöðvarinnar. Þeir sjá um að útbúa viðburði sem eru síðan á opnum húsum.

Stór hópur þeirra sem mæta á opin hús í Giljaskóla eru sammála um að í okkar félagsmiðstöð vanti meira pláss fyrir íþróttaleiki. Við heyrum neikvætt umtal þegar kemur að félagsmiðstöðinni okkar. Við teljum það vera vegna skorts á upplýsingum þ.e. hvert raunverulegt hlutverk félagsmiðstöðvarinnar er og hver markmið hennar eru. Eru starfsmenn skólans t.a.m. nægilega vel upplýstir um hvað við gerum á opnum húsum?

Okkur finnst Giljaskóli gefa okkur alltof afmarkað svæði í félagsmiðstöðinni. Kennarar og starfsmenn skólans eru oft að tala um að þeir vilji hafa jákvætt andrúmsloft á göngunum og að félagsmiðstöðin gegni þar ákveðnu hlutverki. Hún auðveldi krökkum að kynnast betur og það stuðli að betra andrúmslofti á göngunum.

Margir sem mæta á opin hús eru sammála um að gera megi betur og margt sé hægt að laga. Af hverju eru skólinn og félagsmiðstöðin ekki í betra samstarfi þar sem báðir aðilar eru í sama húsnæði?

Okkur finnst margt hægt að bæta. Fyrsta skrefið er að starfsmenn skólans kynni sér betur hvað fer fram í félagsmiðstöðinni og hversu stór partur hún er í lífi okkar.

 

Júlía Rún Rósbergsdóttir 10.KJ

Stefanía Elsa Jónsdóttir 10.KJ