Nýja íþróttahúsið í Giljaskóla breytti miklu fyrir nemendur í skólanum og líka krakkana sem iðka þar fimleika. Eftir að íþróttahúsið kom hefur áhugi á íþróttum aukist mikið. Við getum gert mikið meira í nýja húsinu okkar en við gátum áður en þá voru íþróttirnar í íþróttasal Síðuskóla. Það sem okkur flestum fannst leiðinlegast við að vera þar var að við þurftum að ganga þangað en höfðum takmarkaðan tíma til þess. Strax og við komum aftur í skólann var nestistími byrjaður og kennslustund þar á eftir. Við fengum þess vegna lítinn tíma til að njóta þess að borða, við tölum nú ekki um þegar var mikill snjór.
Fimleikasalurinn í Giljaskóla býður líka upp á fleiri möguleika en fimleikasalurinn gamli í Glerárskóla. Mikið fleiri krakkar eru farnir að stunda fimleika frá því að hann kom til sögunnar og árangurinn eftir því. Á þessu ári komu t.d. tveir Íslandsmeistaratitlar til fimleikafélagsins.
Okkur langar líka að koma inn á breytingar sem okkur finnst að þurfi að verða í sambandi við skólaíþróttirnar. Tökum dæmi: Í íþróttum hjá okkur stelpunum í 8. bekk fáum við 10 mínútur til þess að fara í sturtu, klæða okkur og gera okkur klárar fyrir það sem tekur við eftir íþróttir. Við erum u.þ.b. 20 stelpur og sturturnar eru ekki nógu margar svo stundum er smá bið. Sumar eru lengur en aðrar sem býður upp á að einhverjar mæti of seint í tíma. Okkur þætti líka fínt ef íþróttatímarnir sjálfir væru lengri í senn eða klukkutími (áður en íslenska þjóðin verður nú feitasta þjóðin!). Tíminn er varla byrjaður þegar hann er búinn.
Á sumrin eru útitímar þegar veðrið er gott. Við gerum alltaf það sama sem er að hlaupa skólahringinn. Við munum ekki eftir að hafa gert annað síðan útiíþróttir byrjuðu. Okkur finnst að útitímarnir megi vera fjölbreyttari t.d. snú-snú, fótbolti, körfubolti og þess háttar. Okkur langar að hrósa Einvarði fyrir að vera hvetjandi, skemmtilegur og ákveðinn. Hann er alltaf svo ljúfur en samt ákveðinn sem getur verið gott ef árangur á að nást. Skólahreysti er gott dæmi um það. Liðið var ekki tilbúið fyrr en rúmlega viku fyrir keppnina en samt skilaði það okkur sigri hér á Akureyri. Fórum við því suður og kepptum í Laugardalshöllinni og lentum í 10. sæti. Það er ekki slæmt og alls ekki fyrir lið sem hafði svo lítinn tíma til að undirbúa sig.
Svona finnst okkur ástandið í íþróttum Giljaskóla vera. Takk fyrir okkurJ
Karen Dögg Baldursdóttir 8. EGÞ
Sara Samúelsdóttir 8. EGÞ