Föstudaginn 11. september fengum við í sérdeildinni góða gesti í heimsókn. Til okkar komu aðstandendur verkefnisins “Hlaupið heim” sem fór fram í sumar og fjölskylda Kristjáns Loga Kárasonar sem er nemandi í sérdeild Giljaskóla. Þeir félagarnir Óskar Jakobsson og Gísli Einar Árnason hlupu frá Reykjavík og yfir hálendið til Akureyrar dagana 3. – 11. júlí. Megintilgangurinn með hlaupinu var að styrkja hjálpartækjasjóð Kristjáns Loga og einnig vildu þeir vekja athygli á stöðu langveikra barna og foreldra þeirra. Fólk og fyrirtæki hétu á hlauparana og söfnunarféð rann í hjálpartækjasjóð Kristjáns Loga, til sérdeildar Giljaskóla og Barnadeildar Sjúkrahússins á Akureyri.
Óskar, Gísli Einar og fjölskylda Kristjáns Loga færðu sérdeildinni 500.000 krónur til kaupa á kennslugögnum og búnaði fyrir deildina.
Við í sérdeildinni þökkum innilega fyrir þessa höfðinglegu gjöf og þá góðvild sem sérdeildinni er sýnd með þessu frábæra framtaki.