Giljaskóli á Akureyri var tekinn í notkun árið 1998 og síðan þá eru sömu gardínurnar búnar að hanga uppi. Þær eru ljótar og kominn tími til að skipta þeim út. Þær eru ljósgular og upplitaðar með ljótum marglitum blómum á og vond ryklykt af þeim. Sumar þeirra eru rifnar og aðrar útkrassaðar. Ég tel það vera út af því að þær eru síðar og lufsulegar. Mér finnst persónulega að það ættu að vera dökkbláar gardínur með ljósbláu vöffluformi. Þá sé ég fyrir mér rykktan kappa í hæfilegri sídd þar sem puttar og tær nemenda ná ekki til. Dökkblár er bæði mun flottari litur og vöffluformið er flottara en ljót marglit blóm og bæði eldist það betur og er klassískara.
Leirtauið er óhreint, glösin og diskarnir. Glösin eru langflest óhrein að innan. Maður er heppinn ef maður tekur hreint glas í fyrstu tilraun. Ég fer alltaf að hlæja og verð voða ánægður ef ég tek hreint glas í fyrstu tilraun því það gerist mjög sjaldan. Það eru meiri líkur á að þú vinnir í lottó! Ég á persónulegt met í að taka bara óhrein glös. Ég held að ég hafi þurft að gera 8 tilraunir þar til ég fékk hreina glasið. Svo þoli ég ekki þegar það er pítsa og djús í hádegismat. Því þá eru starfskonur í eldhúsi búnar að hella í glösin. Djúsinn er litaður eins og þið langflest vitið og þá sér maður ekki botninn á glasinu og þar af leiðandi veit maður ekki hvort það hafi verið haugskítugt eða ekki. Diskarnir eru mjög oft kámugir og það versta við það er að maður getur ekki valið diska sjálfur og tekið þann hreina. Dúsanka yfirkokkur og matreiðslustýra skammtar á þá og velur þá. Það sem mér dettur einna helst í hug er að annaðhvort ekkert eða mjög lítið þvottaefni sé notað og ef svo er hefur það mætt niðurskurðarhnífnum og finnst mér það bagalegt. Eins gæti það verið lélegur tækjakostur sem einnig þyrfti að endurnýja.
Þrátt fyrir ljótar gardínur með ljótum marglituðum blómum á og óhreinu leirtaui er þetta fínasti skóli sem býr yfir góðu starfsfólki og skemmtilegum samnemendum.
Daniel Ingi Kristinsson
10. IDS