Íslenska á unglingastigi er umfangsmikil námsgrein með mörgum undirþáttum. Til að kennsla verði markviss, og þá jafnframt nám, er æskilegt að til sé leiðarvísir um áherslur og markmið. Aðalnámskrá grunnskóla er vissulega leiðarljós kennara í allri markmiðssetningu en hún ein og sér leysir ekki allan vanda. Til þess er hún of ítarleg. Á hverju hausti útbúa kennarar áætlanir fyrir veturinn. Þegar nær einungis er notast við aðalnámskrá við þá vinnu, eins yfirgripsmikil og hún er, má gera ráð fyrir ólíkum áherslum á milli ára og óæskilegu misræmi milli kennara. Slíkt stefnuleysi leiðir af sér óþarfa vinnu á haustin við undirbúning, markmiðssetningu og verkefnagerð. Æskilegt er að skólinn móti sér stefnu byggða á aðalnámskrá þar sem áherslur eru útlistaðar og markmið skýr. Að öðrum kosti eru kennarar dæmdir til að finna upp hjólið í ágúst ár hvert.
Undanfarin ár hafa nokkrir íslenskukennarar á unglingastigi unnið eftir hugmyndafræði sem gengur undir nafninu Giljaskólaleiðin. Stoðirnar eru þrjár og einkenna þær að miklu leyti þau vinnubrögð sem viðhöfð eru í íslensku frá 8. bekk og þar til grunnskólagöngu lýkur. Áherslan er á framsögn, lestur og ritun í gegnum raunveruleg, merkingarbær viðfangsefni sem endurspegla veruleikann eins og hann blasir við utan veggja skólans. Reynt er eftir fremsta megni að koma afurðum nemenda, hvort sem þær er í ræðu eða riti, fyrir augu og eyru almennings. Rekja má upphaf Giljaskólaleiðarinnar aftur til ársins 2010 þegar upphafsmaður hennar, Brynjar Karl Óttarsson, fór að gera tilraunir með greinaskrif og málþing nemenda á unglingastigi. Í kjölfarið hóf hann vinnu við stefnumótun í námsgreininni með áherslu á fyrrnefndar þrjár stoðir. Hvatinn að þeirri vinnu var tvíþættur. Annars vegar að halda áfram að stuðla að lifandi og merkingarbærum viðfangsefnum í íslenskunni. Hins vegar að marka stefnu fyrir skólann í íslensku á unglingastigi í því skyni að gera vinnuna markvissari og markmiðin sýnilegri nemendum og kennurum til góða. Síðan þá hefur stefnumótunin vafið upp á sig jafnt og þétt. Frá árinu 2012 hafa Brynjar og Steinunn Kristín Bjarnadóttir unnið saman að frekari þróun Giljaskólaleiðarinnar. Veturinn 2014 – 2015 vann sérstakt teymi kennara í Giljaskóla undir merkjum Giljaskólaleiðarinnar þar sem m.a. voru skoðaðar leiðir við að innleiða hana á miðstig.
Framsögn þjálfum við með óundirbúnum ræðuhöldum með reglulegu millibili allt skólaárið sem og með formlegri hætti einu sinni til tvisvar á önn. Málþing nemenda eru einkennandi fyrir áherslur í framsögn. Nemendur sem stunda nám við Giljaskóla öll árin á unglingastigi taka t.a.m. þátt í sex málþingum, einu á hverri önn, ýmist með bekknum eða árgangnum. Á málþingunum flytja nemendur eigin erindi. Eru þau gjarnan hljóðrituð og send í loftið í gegnum veraldarvefinn fyrir foreldra og aðra áhugasama að hlýða á. Á haustönn fara fram rökræður nemenda á milli þar sem þeir takast á um álitamál, skiptast á skoðunum og læra að taka tillit til ólíkra sjónarmiða.
Lestur er mikilvægur á unglingsárum ekki síður en á fyrstu árum skólagöngunnar. Helsta markmiðið er leita allra mögulegra leiða við að glæða áhuga á bókum og lestri. Að ákvörðunin um að lesa komi innan frá – að nemandinn upplifi gleðina við að setjast niður í rólegheitum með góða bók. Jákvætt viðhorf kennarans til bóka og lestrar og vilji til að smita frá sér er lykilatriði áður en lagt er af stað. Nemendur fá tíma á stundatöflu fyrir „frjálslestur“ en þá les hver nemandi fyrir sig bók sem hann velur sér eftir sínu áhugasviði. Kennarinn les einnig reglulega fyrir hópinn rétt eins og tíðkast á yngri stigum og þá kynnir hann bækur og rithöfunda fyrir nemendum, t.d. í bókaflóðinu fyrir jólin. Liður í að glæða áhuga og auka líkur á lestri er að auka aðgengi nemenda að bókum. Það gerum við með því að setja upp bókahillur sem víðast í skólanum.
Ritun skipar stóran sess í íslenskunámi nemenda og hefur gert undanfarin ár. Helstu viðfangsefni eru skapandi skrif í persónulega dagbók sem nemendur halda allan veturinn. Frelsi nemenda er umtalsvert þar sem þeir skrifa oftar en ekki um eigin hugleiðingar. Í einhverjum tilfellum skrifa þeir eftir fyrirmælum kennara. Í dagbók er áherslan meiri á innihald og sköpunargleði en reglur um málfar og stafsetningu. Greinaskrif sem birtast á opinberum vettvangi eru orðin að föstum lið hjá nemendum Giljaskóla. Þeir skrifa eina grein á hverri önn á þessu þriggja ára tímabili, samtals sex greinar sem birtar eru á opinberum vettvangi. Gerðar eru kröfur um málfar og stafsetningu þar sem kennari fer yfir drög að greinunum áður en þær eru fullunnar og gerir athugasemdir eftir því sem þurfa þykir. Textagerð í tengslum við málþing er þónokkur þar sem nemendur rita sinn eiginn texta sem þeir svo flytja munnlega. Þessu vinnuferli öllu fylgir óhjákvæmilega töluverður lestur. Þannig skarast allar þrjár stoðir Giljaskólaleiðarinnar í einu og sama verkefninu.
Málfræði kemur við sögu í öllum ofangreindum áhersluþáttum með einum eða öðrum hætti rétt eins og aðalnámskrá grunnskóla segir til um.
“Málfræði og kennsla hennar má ekki að vera einangrað fyrirbæri í kennslunni heldur virk í athugun á texta og töluðu máli, ekki síst í umfjöllun um texta nemenda sjálfra.“ (Aðalnámskrá grunnskóla: Greinasvið 2013, bls. 100).
Vinna við þróun Giljaskólaleiðarinnar er komin vel á veg. Málþing, lestur og skrif eru orðin veigamikill þáttur í námi barnanna. Verkefnislýsingar eru langt komnar sem og vinna við gerð námsmats og tenging við grunnþætti menntunar. Þegar þessi orð eru skrifuð stendur yfir vinna við að útbúa heildstætt kynningarefni. Mun það innihalda úttekt á upphafi, þróun og framtíðarsýn Giljaskólaleiðarinnar, hugmyndafræði og nánari útlistun á þremur stoðum Leiðarinnar, tengingu við aðalnámskrá og grunnþætti menntunar, verkefnislýsingar og námsmat. Ennfremur er hafin vinna við undirsíðu á heimasíðu Giljaskóla sem tileinkuð verður Giljaskólaleiðinni. Þar verður hægt að nálgast allar helstu upplýsingar. Þá má geta þess að Giljaskólaleiðin er með fésbókarsíðu þar sem fylgjast má með gangi mála.
Giljaskóli, september 2015.
Brynjar Karl Óttarsson og Steinunn Kristín Bjarnadóttir
umsjónarmenn Giljaskólaleiðarinnar.
Heimild:
Aðalnámskrá grunnskóla: Greinasvið 2013.