Í Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna í 19. grein stendur að “ Allir skulu frjálsir skoðana sinna og að því að láta þær í ljós.” Það þýðir að þú mátt segja og skrifa hvað sem þú vilt, hvar sem þú vilt. Það þýðir samt að þú verður að taka ábyrgð á því sem þú segir. Ef þú ræðst á sjálfsvirðingu fólks eða svertir það í annarra augum á opinberum miðli er hægt að kæra þig fyrir það.
Krakkar og unglingar eru í alltof mörgum tilvikum ekki að fara eftir þessu. Þeir notfæra sér það sem hægt er að gera á netinu og ráðast á sjálfsvirðingu annarra unglinga. Sem dæmi ætla ég að nefna síðu sem nefnist Formspring. Sú síða er hugsuð til þess að spyrja aðra notendur hennar um það sem þú vilt. Stærsti gallinn og í rauninni eini gallinn við Formspring er að þú getur sent spurninguna nafnlaust. Í mörgum tilvikum eru þetta ekki spurningar. Oft eru þetta móðganir og hótanir og oft er þetta bara hreinlega einelti! Mér finnst alltof margir vera að fá svona á sig og ekki hjálpar til að það eru líka til síður þar sem þú getur sent nafnlaus SMS.
Það hefur mikil áhrif á sjálfsmyndina ef alltaf er verið að koma með einhverjar ömurlegar athugasemdir um sama aðilann. Það er mikilvægt að vera með góða sjálfsmynd en í hvert skipti sem einstaklingur er rakkaður svona niður lækkar sjálfsmyndin. En auðvitað erum við líka misviðkvæm. Það eru líka margir sem taka þetta ekkert á sig og þeim er alveg sama hvað öðrum finnst og auðvitað er rétt að hugsa þannig. En eins og ég sagði þá erum við misjöfn og það eru margir sem taka þetta nærri sér.
Þið tókuð eflaust eftir í fjölmiðlum þegar bandarísk stelpa sem hét Amanda setti myndband af sér á netið þar sem hún sagði sögu sína. Henni hafði verið strítt frá því hún byrjaði í skóla. Þegar hún varð eldri var netið orðinn stór þáttur í eineltinu. Hún skipti þrisvar um skóla en það endaði alltaf eins, hún var lögð í einelti bæði andlegt og líkamlegt. Fimm vikum eftir að hún birti myndbandið fannst hún látin á heimili sínu. Hún hengdi sig. Þetta er bara eitt af örfáum dæmum um afleiðingarnar. Og þetta hefur gerst oftar en einu sinni og oftar en tvisvar.
Það sem ég er að meina með þessu er að við skulum hætta að tala neikvætt um fólk og niður til þess og hrósum því frekar. Við vitum öll hvað það er gott að fá hrós. Það er bæði hvetjandi og uppbyggjandi. Hrós geta verið mjög áhrifarík og þá sérstaklega fyrir þá sem eru með lélega sjálfsmynd því hrós byggja sjálfsmyndina upp. Ef Amöndu hefði verið hrósað á móti því sem hún var rökkuð niður væri hún kannski hér í dag. Hver veit?
En hver er þá lausnin? Hvað er hægt að gera til þess að unglingar átti sig?
Að mínu mati felast lausninar í því að auka forvarnir meðal barna og unglinga í skólum. Reglulegar forvarnir um netnotkun og afleiðingar gætu haft góð áhrif. Ég held einnig að það myndi hjálpa ef foreldrar yrðu virkari og fylgdust meira með því sem börnin þeirra eru að gera á netinu.
Þetta verður að laga. Er rétt að unglingar þurfi að óttast það að fara á netið því þeir eigi það á hættu að búið sé að segja eitthvað óviðeigandi um þá á opinberum miðli. Þetta hefur leitt til sjálfsmorða og það sýnir alvarleika málsins. Þarf virkilega eitthvað alvarlegt að gerast til að fá unglinga til að hugsa?
Byrjaðu að hrósa þeim sem eru í kringum þig og þeim sem þú umgengst á hverjum degi og þú færð það margfallt til baka.
Sara Mist Gautadóttir, 10.IDS
Greinin er unnin upp úr málstofuverkefni sem nemendur 10. bekkjar fluttu munnlega á heimatilbúnu málþingi í skólanum í febrúar.